Naumt tap í fyrsta leik – geta jafnað á heimavelli á þriðjudag

Þórsarar töpuðu fyrsta leiknum í undanúrslitunum gegn KR í Domino’s deildinni í körfubolta 99-91.

Eins og við var að búast þá var þetta hörku leikur þar sem Þórsarar gáfu fimmföldum Íslandsmeisturum ekkert eftir. Þórsarar komust þremur stigum yfir fyrir lok þriðja leikhluta og leikurinn var í járnum mest allan lokafjórðunginn. Á síðustu þremur mínútum leiksins voru heimamenn í KR sterkari og unnu að lokum átta stiga sigur eftir frábæran leik þar sem Þórsarar sýndu að þeir geta vel unnið þetta sterka KR lið.

Næsti leikur fer fram í Þorlákshöfn á þriðjudaginn og hefst hann klukkan 19:15. Nú fjölmennum við í grænu á pallana og styðjum okkar stráka til sigurs en eins og fyrr þá þarf að vinna þrjá leiki til að komast í úrslit.