Sandra Dís ráðinn sviðsstjóri fjármála, stjórnsýslu og menningarsviðs Ölfuss

Sandra Dís Hafþórsdóttir hefur verið ráðin í starf sviðsstjóra fjármála, stjórnsýslu og menningarsviðs Ölfuss.

„Að afloknum viðtölum við þá fjóra umsækjendur sem Hagvangur taldi hæfasta af umsækjendum um starf sviðsstjóra fjármála, stjórnsýslu og menningarsviðs var ákveðið að fara að ráði Hagvangs sem annaðist umsóknarferlið og bjóða Söndru Dís Hafþórsdóttur starfið. Hún hefur þegar þegið þá stöðu. Tillaga um ráðningu hennar mun liggja fyrir á næsta fundi bæjarráðs, þótt sjálfsagt sé þar um formsatriði að ræða enda fulltrúar bæði meiri- og minnihluta þátttakendur í ákvörðuninni.“ Þetta segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, í tilkynningu um ráðninguna.

Sandra Dís er fædd árið 1974 og gift Reyni Jóhannssyni fangaverði og húsasmiði. Þau eiga tvö börn, 11 og 14 ára. Sandra Dís er lærð viðskiptafræðingur og hefur starfað sem fjármálastjóri Árvirkjans seinustu ár. Áður starfaði hún til að mynda hjá KPMG og Kaupþingi. Hún hefur auk þess ríka þekkingu af sveitarstjórnarmálum. Sat í bæjarstjórn Árborgar í tvö kjörtímabil og sinnti þar fjölmörgum trúnaðarstörfum. Sat meðal annars í bæjarráði 2012-2016, var forseti bæjarstjórnar 2017-2018, formaður fræðslunefndar 2010-2018, sat í stjórn Tónlistarskóla Árnesinga 2010-2018, fulltrúi í Héraðsnefnd Árnesinga, sat í stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga í 6 ár, formaður úthlutunarnefndar Uppbyggingarsjóðs Suðurlands ásamt því að sinna ýmsum öðrum störfum sem fulltrúi sveitarfélagsins.

„Sem sviðsstjóri mun Sandra Dís taka þátt í yfirumsjón með stjórnsýslu, fjármálum og starfsmannahaldi sveitarfélagsins og stofnana þess, auk menningarmála í víðasta skilningi þess orðs. Hún verður staðgengill bæjarstjóra og hefur ásamt aðalbókara og bæjarstjóra yfirumsjón með fjármálastjórnun bæjarins og stofnana,“ segir ennfremur í tilkynningunni.