Þorlákshafnarbúar verðlaunaðir á Nótunni

Lokakeppni Nótunnar, uppskeruhátíðar tónlistarskólanna, var haldin í Hofi á Akureyri laugardaginn 6. apríl.  Þar kepptu 24 atriði alls staðar að af landinu sem höfðu áður verið valin úr hundruðum atriða á svæðistónleikum.

Meðlimir No Sleep á sviði

Tónlistarskóli Árnesinga átti tvö atriði í lokakeppninni og er skemmst frá því að segja að bæði unnu til verðlauna. Rythmasveitin No sleep (Andvaka) fékk viðurkenningu í opnum flokki fyrir framúrskarandi tónlistarflutning en hana skipa Þorlákshafnarbúarnir Jakob Unnar á rafbassa og Þröstur Ægir á trommur auk Selfyssinganna og gítarleikaranna Gylfa Þórs og Valgarðs Una, eins og áður kom fram í Hafnarfréttum eftir að þeir félagar komust áfram í lokakeppnina.

Fiðlusnillingurinn Eyrún Huld

Hitt atriði Tónlistarskóla Árnesinga var svo hinn stórefnilegi fiðluleikari Eyrún Huld Ingvarsdóttir frá Þrándarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi en hún keppti í flokki miðprófsnemenda. Hún fékk einnig viðurkenningu frá Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og býðst að spila með sveitinni á næsta starfsári. Glæsilegir fulltrúar.

Allir verðlaunahafar ásamt dómnefnd og Aldísi Hafsteinsdóttur, formanni SÍS

Það verður spennandi að fylgjast með þessu efnilega tónlistarfólki í framtíðinni og óskum við þeim sem og Tónlistarskóla Árnesinga til hamingju með þennan stórglæsilega árangur!