,,Hitið upp kinnar og magavöðva til að geta hlegið ykkur máttlaus“ – Viðtal!

Það verður glæsilegur hópur sem stígur á stokk á Hendur í höfn 22. júní.

Margir hafa velt fyrir sér hvað þetta Búkalú sé eiginlega sem verður á Hendur í höfn 22. júní. Við ákváðum að leita eftir svörum hjá Margréti Erlu Maack sem fer fyrir hópnum og fengum í leiðinni að vita hvað leiddi til þess að hún varð brautryðjandi á sínu sviði á Íslandi. Sviði sem hún hefur staðið á sem sirkúslistamaður, burlesque dansari og danskennari ásamt því að stýra og koma fram á kabarett sýningum.

Getur þú sagt okkur aðeins frá þínum bakgrunni og hvernig þú komst á þann stað sem þú ert á í dag? 
,,Í febrúar 2007 gerðist það í sömu vikunni að kærastinn dömpaði mér og ég vann milljón í Happrætti Háskólans. Ég fór því til New York sumarið 2007 til að fara í masterclass í magadansi en í gegnum karaoke og standöpp kynntist ég kabarettlistamönnum ýmiskonar. Einn reddaði mér áheyrnarprufu á stað sem heitir The Box og þar var ég ráðin í eina viku sem magadansmær. Eitt kvöldið var svo ein dansmærin lasin og ég þurfti að leysa hana af og þar sem ég stóð í pínubrók og á brjóstadúskum að blása flórsykri yfir dvergvaxinn mann að herma eftir Marilyn Manson hugsaði ég: Þetta er það skemmtilegasta sem ég hef gert! Ég skipti því um stefnu og fór í burlesque-tíma og sótti sýningar og kynntist fólki.Þegar sumrinu lauk var ég ekki sérlega spennt að koma aftur heim en vinir mínir hvöttu mig áfram, sögðu að ég væri mjög heppin að geta skapað senu frá grunni og búið til sýningar fyrir fólk sem það hefði ekki séð áður. Viku eftir að ég kom heim sá ég svo auglýsingu um ókeypis sirkustíma í Kramhúsinu, sem urðu grunnurinn að Sirkus Íslands þar sem ég fékk frjálsar hendur við atriðasköpun og við bjuggum til Fullorðinssirkusinn Skinnsemi. Ég starfaði með sirkusnum 10 ár en hætti fyrir nokkrum árum til að einbeita mér 100% að fullorðinsskemmtunum, og hef aðallega sinnt því með Reykjavík Kabarett auk þess að kenna burlesque í Kramhúsinu sem hefur orðið til þess að tveir aðrir burlesque-hópar hafa nú sprottið upp: Dömur og herra og Túttífrútturnar.

Hvað er Búkalú?
,,Búkalú er eins konar uppskeruhátíð eftir öll ferðalögin mín undanfarin ár, sem fer fram í júní og júlí með fjölbragðasýningum út um hvippinn og hvappinn. Undanfarin ár hef ég verið svo heppin að geta ferðast til að sýna – hef tekið fleiri Bandaríkjatúra en ég get talið og tvo Evróputúra. Mig langaði í rauninni að endurgjalda vinum greiða og gera handvaldar sýningar á heimsmælikvarða þar sem ég stefni saman því besta frá Bandaríkjunum og Evrópu í bland við íslenska skemmtikrafta. Sýningin sjálf er skemmtiatriðahlaðborð – þar sem kynnir leiðir á svið mismunandi fólk sem gleður áhorfendur. Svona sýningarform eru alltaf að verða vinsælli og vinsælli og bjóða upp á skemmtun fyrir fólk með mjög stutt athyglisspan. Þegar ég sendi út pósta um að þetta væri í bígerð sögðu öll sem ég hafði samband við að þau vildu vera með, eina vandamálið var að raða upp sem fjölbreyttustum sýningum.

Hverjir koma fram með þér á Hendur í höfn?
,,Fyrst ber að nefna kynninn Wilfredo – sem er minn uppáhalds og líka uppáhaldið hennar mömmu. Hann er skopstæling á suðrænum og seiðandi hótelsöngvara. Wilfredo hefur tvisvar áður komið til Íslands og við höfum ferðast saman um Bandaríkin. Hann býr í New York og ég fæ fleiri þaðan: Burlesque-dansmærin Maine Attraction sem er ótrúlega fyndin og ögrandi, þeir Matt Knife og Cubby Hall koma með boylesque – sem er karlkynsútgáfan af burlesque og svo eldlistagyðjan Sage Sovereign. Axel Diego er gamall sirkusvinur minn og hann verður með svokallað „sideshow“ þar sem reynir á þolmörk mannslíkamans og svo er það Diva Hollywood sem er dragkóngur og svipuskemmtikraftur frá Englandi.“

Við hverju mega áhorfendur búast?
,,Það sem mér þykir alltaf skemmtilegast að heyra er að fólki finnst þetta mun fyndnara en það bjóst við. „Fullorðinssýning“ gefur vissulega í skyn að þarna sé kynþokkinn í fyrirrúmi en ég vil leggja áherslu á að sýningin er fyndin. Svo hitið upp kinnar og magavöðva til að geta hlegið ykkur máttlaus.“

Eitthvað sem þú vilt bæta við?
,,Hendur í Höfn er ekki stór staður svo það er takmarkaður fjöldi miða í boði. Það hefur nú þegar verið uppselt á nokkrar sýningar í túrnum svo við hvetjum fólk til að tryggja sér miða. Við hlökkum alveg ótrúlega til að koma til Þorlákshafnar, Hendur í Höfn hentar svona sýningu afar vel. Og ef fólk missir af þessari sýningu verður önnur Búkalú á Skyrgerðinni 26. júlí – en þá verður allt annað fólk um borð.“

Miðasalan er hafin.