Þórsarar að gera góða hluti

Krakkarnir í Þór Þorlákshöfn hafa verið að gera góða hluti í íþróttunum nú í vor. Félagarnir Ísak Júlíus Perdue og Styrmir Snær Þrastarson voru valdir í U16 og U18 landslið Í körfuknattleik og eru nú staddir í Finnlandi á Norðurlandamóti í þessum aldursflokkum. Þeir eru báðir uppaldir Þórsarar og hafa verið að æfa og spila með sínum jafnöldrum en auk þess með meistaraflokki Þórs í vetur. Seinna í sumar fara þeir félagar svo á Evrópumót, Ísak til Svartfjallalands og Styrmir til Rúmeníu.

Systkinin Auður Helga og Viktor Karl Halldórsbörn eru fjölhæft íþróttafólk. Auður Helga æfir fimleika og knattspyrnu og Viktor hefur í gegnum tíðina æft flestar íþróttagreinar, mest knattspyrnu og frjálsar íþróttir. Þau hafa bæði verið viðloðandi frjálsar í mörg ár og  kepptu bæði á Meistaramótum Íslands nú í júní. Þau gerðu sér lítið fyrir og kræktu bæði í Íslandsmeistaratitla í spjótkasti og Auður Helga einnig í langstökki. Hún bætti sinn persónulega árangur í báðum greinum, kastaði spjótinu 30,89m og stökk 4,89m í langstökki. Viktor Karl kastaði spjótinu 53,96 sem er hans besti árangur á tímabilinu.

Sannarlega frábær árangur hjá þessu flotta íþróttafólki og þau öll glæsilegir fulltrúar síns íþróttafélags – og auðvitað síns bæjarfélags.  Áfram Þór!