Ægir áfram á toppnum eftir öruggan sigur á Kríu

Ægismenn áttu ekki í neinum vandræðum með Kríu í kvöld þegar liðin mættust á Þorlákshafnarvelli í D-riðli 4. deildarinnar í fótbolta.

Ásgrímur Þór Bjarnason kom Ægismönnum yfir á 20. mínútu og bætti Pálmi Þór Ásbergsson við öðru marki liðsins á þeirri 37. Ásgrímur var aftur á ferðinni á 40. mínútu og kom Ægi í 3-0. Ægismenn voru ekki hættir að skora í fyrri hálfleik en Milan Zorica skoraði fjórða mark Ægismanna á 43. mínútu. Ásgrímur fullkomnaði síðan þrennuna sína með marki á loka mínútu fyrrihálfleiks og staðan því 5-0 í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var heldur rólegri hvað markaskorun varðaði en Pétur Smári Sigurðsson skoraði sjötta mark Ægismanna á 70. mínútu leiksins. Gestirnir í Kríu skoruðu síðan eitt mark á loka mínútu venjulegs leiktíma og lokatölur urðu 6-1.

Ægismenn sitja áfram á toppi D-riðils 4. deildarinnar en næsti leikur liðsins er 10. ágúst gegn KFS í Vestmannaeyjum.