Héraðsskjalasafnið verður ekki staðsett í Ölfusi

Héraðsskjalasafn Árnessýslu verður ekki staðsett í Þorlákshöfn, þrátt fyrir mikinn vilja og þrýsting frá bæjarstjórn Ölfuss. Málið var tekið fyrir á fundi Héraðsnefndar Árnesinga 15. október sl. og var samþykkt að safnið verði á Selfossi.

Sveitarfélagið hefur lagt mikla áherslu á að fá héraðsskjalasafnið og bauð fram lóð í miðbæ Þorlákshafnar endurgjaldslaust, lagði fram frumhönnun að húsnæði og var einnig búið að finna einkaaðila sem var tilbúinn að byggja framtíðarhúsnæði undir starfsemina eftir kröfulýsingu Héraðsskjalasafnsins og leigja safninu það.

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði og tel ég vinnubrögð bæjarstjórnar Árborgar í þessu máli ekki vera til eftirbreytni og ekki til að auka á samstöðu innan svæðisins.“ sagði Gestur Þór Kristjánsson, forseti bæjarstjórnar í Ölfusi í viðtali við Hafnarfréttir.

En bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum 10. október að bjóða fram svipað framlag og Sveitarfélagið Ölfus lagði fram fyrir mörgum mánuðum.

„Einkennilegt er að á sama fundi hjá bæjarráði Árborgar var samþykkt að óska eftir afstöðu sveitarfélaga í Árnessýslu til sameiningar sveitarfélaganna og hvort vilji sé til að hefja viðræður og skoðun á þeim möguleika. Ekki er erfitt að ímynda sér hvaða áhrif sú sameining myndi hafa fyrir minni sveitarfélögin í þeirri sameiningu þegar Árborg í krafti stærðar sinnar kemur í veg fyrir að nokkuð fari út fyrir Selfoss.“ Sagði Gestur Þór Kristjánsson en Árborg átti 9 atkvæði á fundinum.

Samkvæmt upplýsingum Hafnarfrétta var ekki samrómur um málið í héraðsnefnd og féllu atkvæði þannig að 7 fulltrúar kusu með staðsetningu í Þorlákshöfn, 11 kusu með Selfossi og 3 atkvæði voru auð eða ógild.