Styttist í skammdegishátíðina Þollóween

Skammdegishátíðin Þollóween var haldin í fyrsta sinn í fyrra og hlaut verðskuldaða athygli og meðal annars Hvatningarverðlaun Heimilis og skóla. Það var því ekkert annað í stöðunni en að endurtaka leikinn þetta árið og hefst hátíðin næsta mánudag og stendur yfir í heila viku, til sunnudagsins 3. nóvember.

Dagskráin er hræðilega spennandi

Dagskrána má nálgast sem stærra skjal hér fyrir neðan.

Ákveðið var að halda nokkrum viðburðum óbreyttum á milli ára og breyta öðrum og mun ég hér stikla á stóru.
Skelfilegu skrautsmiðjurnar verða á sínum stað, þar sem allir hittast í Grunnskólanum í Þorlákshöfn til þess að búa til hryllilegt skraut og skera út í grasker. Ónotaleg sundstund verður líkt og í fyrra en dæmi um nýja viðburði eru ratleikirnir Skuggar og skúmaskot, fyrir miðstig og Rökkur og ráðgátur fyrir elsta stig og fullorðna. Athugið að nauðsynlegt er að skrá lið til leiks í þessa viðburði og eru allar nánari upplýsingar um það í viðburðunum sem finna má á facebook síðu Þollóween. Viljum við hvetja foreldra til að aðstoða börnin sín við það.

Leikurinn Grafir og bein, sem sló svo rækilega í gegn hjá yngstu kynslóðinni í fyrra verður endurtekinn, en hann gengur út á að finna bein sem einhverra hluta vegna eru í Skrúðgarðinum og til þess þurfa börnin auðvitað að nota vasaljós. 

Stútfullar kistur af eigulegu góssi

Á meðal nýjunga í ár eru fyrrnefndir ratleikir, draugahúsið að Oddabraut 14 sem verður opið fyrir þau sem þora á laugardagskvöldið og flóamarkaðurinn Komdu og skoðaðu í kistuna mína, þar sem reikna má með stútfullum kistum af eigulegu góssi og sagt er að kisturnar verða fleiri en í fossvogskirkjugarði, tilvalið fyrir laugardagsrúnt í Þorlákshöfn.

Þá verður einnig haldið Nornaþing á Hendur í höfn, þar sem nornir bæjarins safnast saman til að leggja á ráðin og skemmta sér fram á nótt föstudaginn 1. nóvember. Á laugardagskvöldinu ríkir gleðin á Svarta Sauðnum þar sem verður Pub Quiz með Bjarna Lár og trúbador stemning sem seyðkarlinn Óttar mun sjá um að seyða fram. Að sjálfsögðu eru allir fullorðnir hvattir til að mæta á þessa viðburði í búningum.

Hér hafa verið taldir upp fjölmargir viðburðir en listinn er aldeilis ekki tæmdur og er áhugasömum bent á facebook síðu Þollóween fyrir frekari upplýsingar og einnig má sjá dagskrána í heild sinni hér fyrir neðan. Allir eru velkomnir (ath! aldurstakmörk víða) en nauðsynlegt er að skrá sig á suma viðburði og því borgar sig að skoða vel viðburðina á facebook síðunni áður en lagt er af stað.