Þórsarar grátlega nálægt því að leggja sexfalda Íslandsmeistara KR

Vincent Bailey mjög góður í liði Þórsara í kvöld. Mynd: Karfan.is / Guðlaugur Ottesen

Þórsarar voru grátlega nálægt því að leggja sexfalda Íslandsmeistara KR að velli í DHL höllinni í Vesturbæ Reykjavíkur í kvöld. Þórsarar áttu lokaskot leiksins sem hefði tryggt liðinu sigurinn hefði það ratað rétta leið en lokatölur leiksins voru 78-75 Íslandsmeisturunum í vil.

Mikið jafnræði var með liðunum í þessum leik og ekki að sjá að annað liðið væri búið að vinna alla sína leiki og hitt liðið aðeins náð einum sigri gegn Akureyringum í síðustu umferð. Vörn Þórsara var mjög góð og þá sérstaklega í seinni hálfleik. Til að mynda skoruðu KR-ingar einungis 9 stig í þriðja leikhlutanum gegn 23 hjá Þórsurum.

Fyrirliðinn Emil Karel Einarsson var enn einu sinni frábær fyrir þórsara með 20 stig, þar af 5 þriggja stiga körfur og þá var Vincent Bailey mjög góður með 24 stig en báðir voru þeir með 70% skotnýtingu í leiknum og tóku 6 fráköst hvor.

Marko Bakovic átti flottan leik og skoraði hann 16 stig og tók 15 fráköst, hvorki meira né minna. Nýji leikmaður Þórs, Dino Butorac, átti góða innkomu í þennan leik og er greinilegt að hann á eftir að aðlagast liðinu vel. Hann endaði með 12 stig og gaf 7 stoðsendingar. Halldór Garðar Hermannsson var með 3 stig en hann á helling inni og vita allir hversu frábær leikmaður hann er.