Þollóween þakkar fyrir sig – myndir!

Þessi mynd er tekin eftir vel heppnað draugahús þar sem harðfullorðið fólk átti meðal annars erfitt með að leyna skelfingu sinni.

Þollóween skammdegishátíðin í Þorlákshöfn var haldin í annað sinn vikuna 28. okt. – 3. nóv. Ekki er annað að heyra en að íbúar og gestir þeirra hafi skemmt sér vel og kunni að meta framtak þessarra nett rugluðu kvenna sem standa að hátíðinni.

Viðburðirnir voru 16 talsins og allsstaðar var topp mæting, en áætlaður fjöldi samanlagður á öllum þessum viðburðum er um og yfir tvöþúsund manns en auðvitað er um sama fólkið að ræða í einhverjum tilfellum.

Dagskráin var að einhverju leiti byggð á þeirri fyrstu en nýjungar í ár voru til dæmis ratleikir í tveimur aldurshópum þar sem þrautir voru leystar á stöðvum út um allan bæ mannaðar af kynjaverum úr öðrum heimum en þessum. Nornaþingið á Hendur í höfn var einnig nýjung sem gekk vonum framar og mátti heyra nornahláturinn berast út um allt þorp.

Þá verður að nefna sérstaklega Draugahúsið að Oddabraut 14 sem var virkilega metnaðarfullt og í raun leiksýning sem hófst fyrir utan og hélt svo áfram á öllum þremur hæðum hússins þar sem óvæntir atburðir áttu sér stað og samtals 15 hryllilegar vættir mættu þeim sem þorðu að fara í gegn. Þollóween nefndin vill sérstaklega þakka Erlu Dan og fjölskyldu hennar fyrir að leggja húsið undir í vikutíma og taka á móti öllum þeim sem þorðu að koma.

Tilgangur Þollóween er að búa til vettvang fyrir íbúa og gesti þeirra að njóta hræðilegrar samveru í skammdeginu, að allir aldurshópar fái viðburði við sitt hæfi og hafa mikið framboð af viðburðum þar sem foreldrar og börn geta notið saman. Þess vegna þótti skipuleggjendum sérstaklega skemmtilegt að sjá foreldra og afkvæmi njóta saman upplifunarinnar eins og ratleikjanna og auðvitað skelfilegu skrautsmiðjunnar, í beinaleitinni í Skrúðgarðinum og á fleiri stöðum.

Eins og áður hefur komið fram er öll vinna nefndarinnar (og fleiri aðila) í kringum hátíðina unnin í sjálfboðavinnu og reynt er eftir fremsta megni að hafa viðburði ókeypis.

Eðlilega er einhver kostnaður við þessa hátíð og stóla skipuleggjendur á styrki til að halda áfram og halda Þollóween 2020. Áhugasamir geta styrkt hátíðina með frjálsum framlögum.
Kt. 621018-1400
Rn. 0152-26-20020

Hér fyrir neðan má sjá valdar myndir frá Þollóween 2019.

Þollóween nefndina langar að þakka öllum fyrir að taka virkan þátt og sérstakar þakkir fær starfsfólk í Grunnskólanum í Þorlákshöfn og í Íþróttahúsinu sem og Hendur í höfn og Svarti Sauðurinn fyrir samvinnuna.