Hvergerðingar vilja sameinast Ölfusi

Bæjarstjórn Hveragerðis hefur lýst yfir vilja sínum til viðræðna við Sveitarfélagið Ölfus um sameiningu sveitarfélaganna en þetta kemur fram í fundargerð bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar frá 14. nóvember sl.

Á fundinum hafnaði bæjarstjórn Hveragerðis tillögu bæjarráðs Árborgar um að ræða sameiningu allra sveitarfélaga í Árnessýslu enda hafa nú þegar mörg sveitarfélög nú þegar hafnað þeirri tillögu.

Í bókun bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar kemur fram að með sameiningu Hveragerðisbæjar og Sveitarfélagsins Ölfuss myndi verða til tæplega 5.000 manna öflugt sveitarfélag í örum vexti, ríkt af náttúruauðlindum og fjölbreyttri atvinnustarfsemi. Slíkt sveitarfélag myndi verða með skriðþunga og kraft sem eftir yrði tekið.

Einnig kemur fram að meðgjöf Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga með sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga yrði ríflega 820 milljónir króna sem létta myndi róðurinn við uppbyggingu nýs sveitarfélags.

Guðmundur Oddgeirsson, bæjarfulltrúi Framfarasinna og félagshyggjufólks í Ölfusi, hefur tjáð sig um málið á Facebook síðu sinni þar sem hann segir „Um að gera að taka samtalið, af fullri alvöru.“

Njörður Sigurðsson, bæjarfulltrúi Okkar Hveragerði, hefur einnig rætt málið á Facebook síðu sinni og segir hann að það þurfi „ekki einu sinni að þrátta um nafn á sameinað sveitarfélag því Hveragerði er í Ölfusi og því yrði heiti sveitarfélagsins auðvitað Ölfus.“