Ölfus hefur hlotið jafnlaunavottun

Sveitarfélagið Ölfus hefur nú hlotið jafnlaunavottun sem er staðfesting á því að jafnlaunakerfi sveitarfélagsins samræmist kröfum jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Með innleiðingu jafnlaunastaðals hefur Ölfus komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun. Jafnlaunavottun er stöðugt umbótaferli hjá sveitarfélaginu.

Elliði Vignisson bæjarstjóri segir að vottunin staðfesti að hjá sveitarfélaginu sé markvisst unnið gegn kynbundnum launamun hjá sveitarfélaginu og þannig stuðlað að jafnrétti og sanngjarnri launastefnu.  „Samhliða þessari vinnu réðumst við í jafnlaunagreiningu og eins og við áttum von á sýna niðurstöður hennar að óútskýrður launamunur af heildarlaunum er nánast engin og langt innan þeirra markmiða sem sveitarfélagið hefur sett sér sem eru að útskýrður launamunur verði aldrei meiri en 3,5% og ávallt sem næst 0%.  Við ætlum að halda þessari baráttu áfram enda ljóst að bestur árangur fæst með því að nýtta til jafns hæfileika allra starfsmanna óháð kyni, kynþætti eða nokkru öðru, og umbuna í samræmi við það.“