Stórt svínabú mun rísa í útjarðri Þorlákshafnar

„Við ætlum okkur að teikna upp sterka mynd af umhverfisvænni matvælaframleiðslu“

Í undirbúningi er að reisa stórt svínabú vestan við Þorlákshöfn með stæði fyrir 1.200 gylltur og allt að 4.800 grísi. Fyrirtækið Síld og fiskur stendur á bak við framkvæmdina en samkvæmt skipulagslýsingu er gert ráð fyrir að uppbyggingin verði í tveimur áföngum og í tveimur húsum sem hvort um sig rúmar 600 gylltur og 2.400 grísi.

„Við höfum seinustu tvö ár unnið mjög hörðum höndum að því að marka sveitarfélaginu ákveðna og markvissa sóknarstefnu þegar kemur að framleiðslu á umhverfisvænum matvælum,“ segir Grétar Ingi Erlendsson formaður bæjarráðs í samtali við Hafnarfréttir.

„Nú er svo komið að sérfræðingar telja að á næstu 40 árum þurfi mannkynið að framleiða jafn mikið af mat og það hefur gert seinustu 8000 árin. Þegar staðan er sú að matvælaframleiðsla losar nú þegar um 30% af gróðurhúsalofttegundum heimsins er ljóst að við sem eigum allt þetta land, alla þessa orku, allt þetta vatn auk þekkingar og mannauðs berum ábyrgð. Á þessum forsendum höfum við unnið með matvælafyrirtækjum að þróun þessara mála.“ Segir Grétar.

Grétar segir að svínabúið sé afar umfangsmikið. „Við gerum ráð fyrir að þessi fjárfesting komi til með að kosta 400-500 milljónir króna en endanleg kostnaðaráætlun liggi þó ekki fyrir enn sem komið er.“

Svínabúið mun verða á iðnaðarsvæðinu sem er merkt I24 á þessari mynd.

Aðspurður út í fjölda starfa sem svínabúið myndi skapa segir hann að svínabú séu þess eðlis að það verða ekki til mörg bein störf við dýrahaldið sjálft þó mikil tækifæri fylgi umsvifum sem þessum. „Þetta gætu ef til vill orðið 7 til 10 störf beint og auðvitað einhver afleidd störf og auðvitað munar um það. Hitt skiptir þó ekki minna máli að þetta verkefni talar beint inn í hugmyndir okkar um Ölfusið sem matvælahérað með áherslu á umhverfisvæna framleiðslu og stofnun sérstaks klasa slíkra fyrirtækja.“

Tímaáætlun verkefnisins liggur ekki ljós fyrir en Grétar bindur þó vonir við að framkvæmdir geti hafist í nánustu framtíð. „Við hjá sveitarfélaginu erum að ljúka því sem að okkur snýr svo sem skipulagsmálum og fleira. Þetta er þó framkvæmd af þeirri stærðagráðu að það eru margir lausir endar sem fyrirtækið þarf að hnýta áður en hægt er að leggja af stað. Það er þannig til dæmis ekki fyrirséð hvaða áhrif það hefur á áætlanir svona framleiðslu fyrirtækis sem fyrst og fremst starfar á innanlandsmarkaði þegar 3 milljónir ferðamanna hverfa í burtu. Þetta allt verður að skoða áður en farið verður að kaupa skæri til að klippa á borða.“

„Nú í kjölfarði á COVID faraldrinum skiptir meira máli enn nokkur sinni áður að við nýtum þau óþrjótandi gæði og tækifæri sem eru hér í kringum okkur. Sveitarfélagið Ölfus gerir það og við ætlum okkur að teikna upp sterka mynd af umhverfisvænni matvælaframleiðslu. Eitt púslið í þeirri mynd verður vonandi með þátttöku Síldar og fisks og því svínabúi sem nú er til umræðu,“ segir Grétar að lokum.