Páll Marvin Jónsson ráðinn verkefnastjóri við Þekkingarsetur Ölfuss

Sveitarfélagið Ölfus hefur nú í nokkurn tíma unnið markvisst að eflingu atvinnulífsins. Liður í því er eins og komið hefur fram stofnun Þekkingarseturs. Í morgun fundaði bæjarráð vegna þessa og tók þar ákvörðun um að ráða Pál Marvin Jónsson, framkvæmdastjóra Þekkingarseturs Vestmannaeyja og sjávarlíffræðing sem verkefnastjóra. 

Grétar Ingi Erlendsson formaður bæjarráðs segir að Páll hafi þótt sterkastur umsækjenda enda hafi hann leitt uppbyggingu sambærilegs starfs í Vestmannaeyjum um langt bil og ekki á neinn hallað þótt honum sé eignaður stór heiður í því hversu vel hefur til tekist með Þekkingarsetrið í Vestmannaeyjum. „Hann er með afar heppilega menntun sem líffræðingur og reynslu þar sem saman fer þekking á umhverfi fiskeldis, sjávarútvegi og almennt framleiðslu á lífefnum en um leið hefur hann haldgóða þekkingu og reynslu á sviði ferðaþjónustu. Við horfum mjög sterkt til þessara tveggja sviða.“ Grétar segir að á næstu dögum verði fundað með Páli til að komast að sameiginlegri niðurstöðu um það hvernig störfum hans verður háttað og hvenær hann hefur störf.

„Tækifærin hér eru mikil svo sem vegna þeirrar miklu jarðorku sem hér er að finna, gnægðar af fersku vatni, miklu landi og síðast en ekki síst einnar bestu útflutningshafnar á landinu“ segir Grétar Ingi. „Hér eru í undirbúningi miklar framkvæmdir sem tengjast framleiðslu á vistvænum matvælum svo sem með fulleldi á laxi, tilkomu ylvera, framleiðslu á smáþörungum, eflingu seiðaeldis, nýsköpun í sjávarútvegi og margt fleira. Þau fyrirtæki bætast þar við þau sterku fyrirtæki sem þegar starfa á þessu sviði í sveitarfélaginu. Með stofnun Þekkingarseturs Ölfuss munum við vinna markvissara með fyrirtækjum að uppbyggingu á fjölbreyttara atvinnulífi á Suðurlandi, með sérstakri áherslu á umhverfisvæna matvælastarfsemi og nútíma aðferðir við framleiðslu á próteini og öðrum lífrænum afurðum. Þá verður horft til fræðslustarfs, fjölgun atvinnutækifæra, vísindarannsókna, nýsköpunar og fleira.“

Grétar segir að til að undirbyggja þetta hafi verið unnið mjög náið með fjölmörgum fyrirtækjum, innan sveitarfélags sem utan. „Þá höfum við tekið markvissan þátt í gerð matvælastefnu fyrir landið, sótt um Evrópustyrki, haldið fjöldann allan af kynningum og fleira.  Nú er svo komið að verkefnið er orðið það stórt að það kallar á sérfræðiþekkingu og starfskraft sem einbeitir sér að frekari sókn. Þess vegna auglýstum við eftir starfsmanni. Fyrst um sinn verður um verkefnastjóra að ræða sem falið verður að stofna sérstakt félag utan um þetta svo hægt sé að mynda starfsstjórn. Þá þarf að móta samþykktir, búa til fjárhagsáætlun, fjármagna reksturinn, laða að nýja stofnaðila og svo framvegis. Þegar starfsstjórnin hefur tekið til starfa gerum við ráð fyrir að hún ráði framkvæmdastjóra og eftir atvikum fleiri starfsmenn.“