Hamingjan við hafið – í allt sumar!

Sveitarfélagið Ölfus tók þá ákvörðun að fella ekki niður bæjarhátíðina Hamingjuna við hafið í sumar heldur leita nýrra leiða á þessum fordæmalausum tímum farsóttar. Úr varð að í stað þess að halda hátíðina í byrjun ágúst með eina viku fulla af dagskrá og hættu á að fólk safnist þá of mikið saman verður viðburðum dreift yfir allt sumarið. Þannig verða haldnir að meðaltali tveir viðburðir á viku, alla fimmtudaga og laugardaga frá og með laugardeginum 13. júní.

Undirrituð fékk það verkefni að setja saman dagskrá og er hún nú óðum að fæðast og er stefnt að því að kynna hana fyrir helgi á facebook síðu Hamingjunnar við hafið.

Fyrsti viðburðurinn verður núna á laugardagskvöldið 13. júní í Skrúðgarðinum kl. 19. Þá mætir Eva Laufey með matarvagninn sinn ásamt Stöð 2, sem hún ferðast með á milli bæjarfélaga í sumar til þess að kynnast nýsköpun í matargerð á hverjum stað, auk þess sem hún kynnir sér afþreyingu á hverju svæði fyrir sig. Úr verður samloka með hráefnum sem koma frá svæðinu. Markmið Evu er að skapa litla matarhátíð þar sem hún ætlar að gefa samlokur úr matarbíl sínum og hvetur matvælaframleiðendur á staðnum til þess að koma og kynna/selja sínar vörur og með því móti skapast ákveðin matarhátíðarstemning þar sem bæjarbúum gefst kostur á að hittast og njóta þess að fá sér góðan mat.

Áhugasamir geta enn skráð sig til leiks á matarhátíðina með því að senda póst á asaberglind@gmail.com og eru allir aðilar í matvælaframleiðslu í Ölfusi og nágrenni hvattir til þess að vera með.