Opið bréf til bæjaryfirvalda Sveitarfélagsins Ölfuss

Mánudagurinn 29. júní 2020, það er stutt í sumarfrí, tilhlökkun í loftinu og fólk er glatt í sumarsólinni. Við fáum tilkynningu um klukkan tvö að það sé óvæntur starfsmannafundur klukkan fimm. Fólk er hissa, fer að velta vöngum um hvað málið snýst, það koma upp allskonar hugmyndir bæði í gríni og alvöru. Gleðin og tilhlökkunin fékk að víkja fyrir kvíða og óöryggi.

Fundurinn rann upp, mættir voru bæjarstjóri, fulltrúi frá bæjarstjórn og starfskonur frá Hjalla. Það rann upp fyrir öllum á þessari stundu hvað var í vændum. Fundurinn var erfiður, fólk í áfalli og orða vant yfir þessum fréttum. Elliði tjáði okkur að við fengjum bréf næsta dag með frekari upplýsingum um framhaldið. Ef einn starfsmaður hefði ekki spurt frekar út í það hefði enginn vitað á hverju var von því þetta bréf reyndist vera uppsagnarbréf.

Eftir þennan fund vorum við skilin eftir í lausu lofti af hálfu bæjaryfirvalda og strax næsta dag fóru fram einstaklingsviðtöl við starfskonur Hjallastefnunnar. Það gafst lítill tími fyrir starfsfólk að melta þennan nýja veruleika sem blasti við okkur og sumum fannst mjög erfitt að tjá sig opinskátt við ókunnuga aðila sem jafnframt yrðu okkar framtíðar vinnuveitendur. Okkur finnst óeðlilegt að þurfa að svara því á degi tvö hvort við séum tilbúnar að vinna við Hjallastefnuna eða ekki.

Næstu daga vöknuðu upp fullt af spurningum og vangaveltum, svörin sem við fáum eru loðin og óljós og greinilegt misræmi í svörum frá öllum aðilum. Því hefur verið haldið fram að allt starfsfólk fái vinnu hjá Hjallastefnunni, en í einstaklingsviðtölunum kom fram að þær gætu ekki lofað öllum áframhaldandi vinnu sem er á skjön við það sem bæjaryfirvöld hafa haldið fram.

Enginn frá bæjaryfirvöldum hefur gefið sér tíma til að koma á vinnustaðinn og ræða við starfsfólkið þrátt fyrir beiðni um slíkt.

Viku síðar er staðan þessi, mikil óvissa, reiði, sorg og kvíði ríkir á meðal starfsmanna, tilfinningar sem ættu ekki að vera yfirgnæfandi á góðum vinnustað, degi fyrir sumarfrí. Enginn veit hvað bíður okkar, barnanna og foreldra þegar leikskólinn opnar aftur eftir sumarfrí.

Okkur finnst illa að þessu staðið, enginn virðist geta svarað þeim spurningum sem við höfum og benda hver á annan. Okkur langar þó að varpa fram þessum spurningum sem brenna á okkur og fá svör við þeim sem fyrst:

  • Hvað er það í starfi leikskólans Bergheima sem þarf að bæta?
  • Er það stjórnunarháttur, faglegt starf, framkoma starfsfólks og ef svo er af hverju fáum við ekki tækifæri til að bæta okkar starf?
  • Hvaða rök liggja fyrir því að þið teljið að starfsfólk Bergheima verði betra starfsfólk undir hatti Hjallastefnunnar?
  • Fá börnin aðlögun að nýjum aðstæðum eða á að henda þeim og starfsfólki í djúpu laugina 13. ágúst?

Með sumarkveðju
Starfsfólk Bergheima