Svar við opnu bréfi starfsmanna Bergheima

Ágætu starfsmenn á Bergheimum og aðrir áhugasamir

Breytingar eru ætíð erfiðar, ekki síst þegar þær snúa að lífsviðurværi og mikilvægri þjónustu. Í slíkum tilvikum er eðlilegt að tilfinningar verði sterkar. Fyrir því berum við virðingu.

Breytingar eru ekki ætíð tilkomnar af ríkri þörf, sprottinni af því að það sem fyrir er sé slæmt. Breytingar eru oftast nær gerðar af vilja til að gera enn betur. Það á við hvað varðar þær breytingar sem við stefnum nú að hvað varðar leikskólann Bergheima. Við viljum því ítreka enn og aftur að þessar breytingar eru síður en svo viðbrögð við því að þið hafið gert eitthvað rangt. Þeim er ætlað að gera leikskólann enn betri.

Eins og greint var frá í tölvupósti til starfsmanna í gær þá hefur seinasta vika verið afar lærdómsrík fyrir okkur undirrituð. Frá upphafi var það vilji okkar að gera allt sem í okkar valdi stæði til að hafa tíma óvissu sem allra styðstan. Því völdum við þá leið að tilkynna strax að viðræður væru hafnar við Hjalla og að stefnt væri að því að ljúka málinu svo hratt sem mögulegt væri.

Síðan þá hefur verið reynt að vinna hratt og halda öllum upplýstum. Á þeirri rétt rúmu viku sem nú er liðin frá því að bæjarstjórn tók ákvörðun um formlegar viðræður hefur verið fundað með starfsmönnum á starfsmannafundi, málið kynnt foreldrum í tölvupósti, málið kynnt bæjarbúum með fréttatilkynningu, einslega rætt við alla starfsmenn, fundað með foreldrum um áherslur Hjallastefnunnar, fundað með foreldrum um forsendur bæjarstjórnar, tölvupóstur með upplýsingum sendur á alla starfsmenn, ferð starfsmanna til að kynna sér nánar stefnu Hjalla er í undirbúningi og ýmislegt fl. Allra leiða er leitað til að upplýsa og vinna málið hratt í þeirri von að óvissutíminn yrði stuttur.

Upphaflega stóðu vonir okkar til að hægt yrði að ljúka þeim hluta ferilsins í þessari viku. Von okkar stóð til þess að þá þegar yrði búið að ganga frá nýjum ráðningarsamningum sem tryggðu öllum starfsmönnum sem það vildu áframhaldandi starf við leikskólann á nýjum og betri kjörum. Hefur þar til að mynda verið rætt um launahækkun og styttingu vinnuvikunnar. Takmarkið var að ljúka þeim þætti áður en sumarorlof hæfist. Nú liggur fyrir að það næst ekki.

Við sjáum að mistök voru gerð í ferlinu. Óskir um að málin yrðu meira rædd og útskýrð eru eindregnar og mikilvægt að bregðast við. Aukin tíma þarf að gefa í undirbúning og því miður lengir það óvissutíma starfsmanna. Beðist er afsökunar á því sem betur hefði mátt fara.

Eftir fundi og samráð við Hjallastefnuna þar sem upplýsingar vikunnar hafa verið dregnar saman og yfirfarnar viljum við ítreka eftirfarandi:

  • Vilji bæjarstjórnar til samninga við Hjallastefnuna er áfram einbeittur.
  • Öllum starfsmönnum hefur annaðhvort verið boðið starf við leikskólann eða verður boðið það.
  • Innan tveggja vikna verður settur á laggirnar stýrihópur þar sem í sitja amk. tveir starfsmenn Bergheima, tveir fulltrúar foreldra, tveir fulltrúar fræðsluráðs ásamt fulltrúum Hjallastefnunnar og stjórnsýslu sveitarfélagsins.
  • Stýrihópnum verður falið að vinna að innleiðingu á ákvörðun bæjarstjórnar á þeim forsendum sem bestar þykja fyrir börn á leikskólanum Bergheimum. Er þar bæði horft til tímasetninga sem og hraða innleiðingar og eðli hennar.
  • Stýrihópnum verður falið að haga störfum sínum þannig að eigi síðar en um áramót verði Hjallastefnan alfarið tekin við rekstri leikskólans Bergheima. Sé það æskilegt að mati stýrihópsins að vinna málið hraðar er þeim það heimilt.
  • Þegar leikskóli hefur aftur störf má búast við einhverjum breytingum. Hverjar þær verða og hversu miklar er að stóru leyti undir stýrihópnum komið, þar sem starfsmenn eiga sína fulltrúa. Það er því að nokkru leyti undir starfsmönnum sjálfum komið hversu hratt þetta verður unnið.
  • Allir starfsmenn, hefja aftur störf að loknu sumarleyfi sem starfsmenn Sveitarfélagsins Ölfuss. Búast má við að þannig verði það hluta af innleiðingaferlinu.

Um leið og við óskum ykkur ánægjulegs sumarorlofs viljum við ítreka afsökun okkar vegna þeirra óþæginda sem þetta ferli óhjákvæmilega veldur ykkur.

Góðar stundir
Grétar Ingi Erlendsson
Jón Páll Kristófersson
Kristín Magnúsdóttir
Steinar Lúðvíksson
Guðmundur Oddgeirsson
Þrúður Sigurðardóttir