Stórglæsilegur afrakstur vegglistarnámskeiðs

Margir hafa eflaust rekið upp stór augu sem áttu leið fram hjá Olís húsinu á síðustu dögum en þar hafa fæðst stórglæsileg listaverk sem eru afrakstur vegglistarnámskeiðs. Kennari á námskeiðinu var Ágústa Ragnarsdóttir sem á einmitt heiðurinn af öðrum vegglistarverkum sem prýða Þorlákshöfn.

Ágústa segir nemendurna hafa lagt á sig mikla vinnu á námskeiðinu og það átti sig ekki allir á því hversu mikil vinna liggur á bakvið eina svona mynd.

Nemendur hafa unnið á milli 20-25 tíma hver. Þetta er mjög tímafrekt en ákaflega skemmtilegt. Margir halda að þetta sé enga stund gert en þetta eru hátt í 120 klukkustundir fyrir utan tíma kennarans.
Hugmynda- og skissuvinna fyrstu 2 kvöldin. Þriðja daginn út á vegg þar sem þau notast við svokallaða rúðustækkun til þess að koma sinni mynd í réttum hlutföllum, réttri stærð og á réttan stað á vegginn. Hver og einn vinnur að sinni mynd og með sínum stíl“
segir Ágústa.

Listafólkið sem tók þátt og á hvert og eitt mynd eftir sig eru Birgitta Björt Rúnarsdóttir, Kolbeinn Hrafn Hjartarson, Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir, Daníel Rúnarsson og Arnór Daði Brynjarsson.

Myndir af verkunum fylgja hér að neðan en við hvetjum auðvitað alla til að fara og sjá með eigin augum.