Vitaleiðin er ný ferðaleið á Suðurlandi

Vitaleiðin er ný ferðaleið niður við suðurströndina. Vitaleiðin nær frá Selvogi í Ölfusi að Knarrarósvita í Árborg og er leiðin um 45-49 km löng, eftir því hvort ekið er eftir vegi eða strandlínan sé nýtt. Opnunarhátíð Vitaleiðarinnar verður laugardaginn 15. ágúst klukkan 13.00 við Stað á Eyrarbakka.

Vitaleiðin er ferðaleið sem beinir athygli að þorpunum og svæðinu við sjóinn. Á Vitaleiðinni heimsækir þú þrjá bæi, hver með sína sérstöðu, Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri. Vitaleiðin dregur fram þá miklu sögu og menningu sem er til staðar á svæðinu sem og fjölda ólíkra upplifunarmöguleika í afþreyingu og náttúru. Vitaleiðin er um 45-49 km leið, fer eftir ferðamáta og nær frá Selvogi að Knarrarósvita. 

Nafngiftin kemur vegna vitanna, Selvogsvita og Knarrarósvita sem marka upphaf og enda leiðarinnar, að auki er þriðji vitinn á leiðinni Hafnarnesviti í Þorlákshöfn. Vitaleiðin bíður upp á þá skemmtilegu fjölbreytni að ferðalangar geta ekið hana, nýtt strandlengjuna eða þá göngustíga, sem búið er að leggja meðfram ströndinni, gengið, hlaupið, farið ríðandi á hestum eða jafnvel hjólað. 

Íslendingar og aðrir ferðamenn eru hvattir til að upplifa Vitaleiðina og allt það sem hún hefur upp á að bjóða. Nánari upplýsingar um leiðina má finna á www.south.is/vitaleidin.
Vitaleiðin er unnin í samvinnu Markaðsstofu Suðurlands, Sveitarfélagsins Árborgar, Sveitarfélagsins Ölfuss ásamt rekstraraðilum á svæðinu.