Vilt þú vera með bílskúrssölu?

Laugardaginn 1. ágúst, sem er um verslunarmannahelgina, verða tvennir viðburðir á vegum hátíðarinnar Hamingjunnar við hafið. Þá verður hægt að komast í útsýnisflug í þyrlu á vegum Helo fyrir sanngjarnt verð en þeir hafa verið á ferð um landið til að bjóða upp á þessa þjónustu við góðar undirtektir.

Þá er einnig hugmyndin að vera með bílskúrssölur um allan bæ, en sá dagskráliður helst algjörlega í hendur við þátttöku íbúa. Ef góð þátttaka næst þá er hugmyndin að kynna þetta vel í fjölmiðlum og laða að gesti í sveitarfélagið okkar. Því auglýsir hátíðin nú eftir áhugasömum aðilum sem vilja selja eða jafnvel gefa ýmsan varning á sínum lóðum. Sem dæmi um það sem hægt er að selja eða gefa getur verið ýmis varningur úr bílskúrum eða heimilum ykkar sem kjörið er að fái framhaldslíf, eitthvað sem þið viljið baka eða elda og selja, það er hægt að bjóða upp á tónlistarflutning, handavinnu, listaverk, pottaplöntur, tré, plötur, CD, spil, fatnað, snyrtivörur eða svo gott sem hvað sem er. Undirrituð vill hvetja íbúa í Þorlákshöfn og dreifbýli Ölfuss að taka þátt og senda sér línu á hamingjanvidhafid@gmail.com vilji fólk fá nánari upplýsingar eða skrá þátttöku.

Ása Berglind
Verkefnastjóri á menningarsviði Ölfuss
hamingjanvidhafid@gmail.com