Bæjarstjórn Ölfus tók þá ákvörðun að hefja viðræður við Hjallastefnuna án þess að viðra þá hugmynd eða fá ráð hjá fagmenntuðu starfsfólki leikskólans. Þá voru hvorki aðilar úr fræðslunefnd né foreldraráði fengnir til umsagnar fyrr en eftir að ákvörðunin var tekin. Hvernig má það vera að bæjarstjórn geti litið fram hjá þeirri faglegu sýn, þekkingu og reynslu sem leikskólakennarar búa yfir þegar slík ákvörðun er tekin? Eru þessar vinnuaðferðir bæjarstjórnar vænlegar til árangurs?
Bæjarstjórn Ölfus tók þann 29. júní síðastliðinn, ákvörðun að hefja viðræður við Hjallastefnuna um yfirtöku á eina leikskóla Þorlákshafnar. Ákvörðun um þessar viðræður var tekin án nokkurs samtals við starfsmenn eða stjórnendur leikskólans. Þá voru hvorki fræðslunefnd né foreldraráð höfð með í ráðum þegar ákvörðun um viðræður var tekin, heldur voru þessir aðilar teknir inn í samtalið eftir að viðræður hófust. Starfsmenn leikskólans hafa ekki fengið ábendingar um að þeir séu ekki að sinna starfi sínu nægilega vel enda óskuðu þeir eftir svörum þess efnis í opnu bréfi til bæjarstjórnar. Bæjarstjórn svaraði því bréfi en þar kom fram að þessi ákvörðun hafi ekki endilega verið tekin vegna þess að starfsmenn deildanna hafi ekki verið að standa sig í stykkinu heldur til þess að gera leikskólann betri. En hvað þarf að bæta og er bæjarstjórn fullviss um að Hjallastefnan sé besti kosturinn til að bæta starf leikskólans? Það kom ekki fram í svarbréfinu, hvað þá hvað það er við Hjallastefnuna sem bætir hag barnanna okkar svo um munar.
Ég vil taka það fram að það er margt gott sem Hjallastefnan gerir en hún er líka umdeild. Burt séð frá afstöðu bæjarbúa til Hjallastefnunnar langar mig að upplýsa ykkur um tímalínu þessa ferlis eins og hún lítur út í mínum augum:
Mánudaginn 29. júní, fyrri part dags, var leikskólastjóri kallaður á fund, úr sumarfríi, þar sem honum var tilkynnt að bæjarstjórn væri búin að taka þá ákvörðun að hefja viðræður við Hjallastefnuna um yfirtöku á rekstri leikskólans.
Frá klukkan 16:00-16:45 sama dag sat bæjarstjórnin fund þar sem þetta var tekið fyrir og allir (nema einn sem sat hjá) samþykktu að taka upp viðræður við Hjallastefnuna, bæði minni- og meirihluti bæjarstjórnar. Eftir því sem ég veit best hefur engin fundargerð verið birt, þar sem þetta kemur fram.
Klukkan 17:00 þennan sama dag eru starfsmenn leikskólans boðaðir á fund þar sem þeim var tilkynnt væntanleg yfirtaka Hjallastefnunnar. Á fundinum var bæjarstjóri, fulltrúi úr bæjarstjórn og starfsmenn Hjallastefnunnar sem kynntu starfsemi Hjallastefnunnar, heilu korteri eftir að bæjarstjórn samþykkir að hefja viðræður. Seinna kom fram á fundi bæjarstjórnar og foreldra barna leikskólans að þessi hugmynd hafi komið fyrst fram 9. júní, en engin fundargerð frá þeim fundi hefur verið birt opinberlega.
Sama dag fengu foreldrar tölvupóst um fyrirætlanir bæjarstjórnar og grein birtist á Hafnafréttum.is og á mbl.is að Hjallastefnan muni taka við rekstri leikskólans og að það muni gerast á allra næstu dögum. Seinna var leiðrétt að slíkt hafi ekki verið ákveðið.
Þriðjudaginn 30. júní fór hluti starfsmanna leikskólans í einstaklingsviðtöl við starfsmenn Hjallastefnunnar, daginn eftir að formlegur fundur bæjarstjórnar var haldinn og þessi ákvörðun tekin. Ég veit ekki hvað fór fram á þessum fundi en veit þó að starfsmenn voru spurðir af mögulegum verðandi vinnuveitanda sínum hvort þeir gætu hugsað sér að vinna hjá Hjallastefnunni. Að mínu mati eru starfsmenn settir í mjög erfiða stöðu daginn eftir að þeir fengu að vita að þetta stæði til og ekkert svigrúm veitt til að þeir gætu kynnt sér stefnuna. Eins er erfitt fyrir starfsmenn leikskólans að segja sína skoðun í þessum aðstæðum þar sem þeir eflaust hafa áhyggjur af framtíð sinni hjá leikskólanum.
Miðvikudaginn 1. júlí mætti fulltrúi bæjarstjórnar í leikskólann til að afhenda starfsmönnum uppsagnarbréf sem þeir tóku ekki við. Starfsmenn leikskólans hafa fengið þær upplýsingar að uppsagnarbréfið muni berast þeim í ábyrgðarpósti í sumar. Ég veit ekki hvort það hefur verið gert ennþá.
Seinna þennan sama dag voru foreldrar boðaðir á fund þar sem þeir fengu kynningu á Hjallastefnunni. Á fundinum kom meðal annars fram að vonir stæðu til að starfsmenn Hjallastefnunnar kæmust inn í leikskólann meðan á sumarlokun stæði yfir, til að „Hjallavæða“ leikskólann. Þá myndu börn og foreldrar mæta í Hjallaleikskóla í haust. Bæjarstjórn var spurð út í þetta því það var búið að leiðrétta slík fyrirheit sem höfðu komið fram í fréttatilkynningunni á mbl.is og hafnarfréttum.is. Aftur var þá tekið fram að þetta væri ekki satt. Gott og vel.
Fimmtudagskvöldið 2. júlí fæ ég svo skilaboð um að starfsmenn hafi fengið þau skilaboð frá starfsmönnum Hjallastefnunnar að þau ættu að taka saman í skápum og skúffum og fjarlægja allt efni sem þau vildu halda upp á, því planið væri að Hjallastefnufólk myndi koma í sumar og „hjallavæða“ leikskólann. Aftur neitaði bæjarstjórn að það hafi einhvern tímann verið planið. Það gefur mér tilefni til að álykta að það séu greinilega einhverjir samskiptaörðuleikar á milli Hjallastefnunnar og bæjarstjórnar.
Mánudaginn 6. júlí voru foreldrar svo boðaðir á fund bæjarstjórnar þar sem málin voru rædd. Vert er að nefna að þessi fundur var ekki áætlaður í upphafi, heldur boðaður eftir að margar óánægjuraddir fóru að hljóma og svara var krafist fyrir eitt og annað við ferlið, ástæðum fyrir þessari ákvörðun og um stefnuna sjálfa.
Þess ber að geta að síðasti leikskóladagurinn fyrir fimm vikna lokun, var þriðjudagurinn 7. júlí og því voru allir komnir í sumarfrí eftir þann dag. Ekki mjög skemmtileg byrjun á annars eftirsóknarverðu sumarfríi eftir mjög svo sérstakan vetur. Tímasetningin er kannski engin tilviljun, margir hverjir hafa ekki tíma eða orku til að sinna þessu máli, enda fólk komið í langþráð sumarfrí. Hins vegar er ég ófrískur leikskólakennari með grindargliðnun og því lítið á flakki og fannst ég knúin til að benda á gallana í þessu ferli öllu og þær tilfinningar sem eru að brjótast um í mér sem fagaðila.
Það er óhætt að segja að þessi ákvörðun bæjarstjórnar kom mjög flatt upp á starfsmenn leikskólans sem og foreldra barnanna, þótt sumir séu ánægðir með þetta. Persónulega vissi ég ekki til þess að starfið sem fram fer inni á deildum leikskólans hafi verið annað en vel liðið. Það er ekki langt síðan ég vann þarna sjálf og kannast ég ekki við sérstakar athugasemdir við starf deildanna eða að það þyrfti að bæta það á einhvern hátt. Breytingar eru þó oft af hinu góða og þróun menntakerfisins er nauðsynleg. Málið er hins vegar það, að mínu áliti, að skipun að ofan (eins og þessi atburðarás er) er alls ekki vænleg til góðs árangurs. Við erum með vel menntað fólk sem hefur sérhæft sig í þroska og námi barna sem við eigum að geta treyst fyrir þróun á starfi leikskólans. Faglegt samtal milli foreldra og menntaðs starfsfólks á að vera undirstaða þeirrar þróunar. Þegar bæjarstjórn var spurð út í ástæðu þessarar ákvörðunar voru svörin að bæjarstjórn væri ekki með sérþekkingu á rekstri leikskóla. Hafa skal í huga að bæjarstjórn er heldur ekki með sérþekkingu á rekstri grunnskóla eða sérþekkingu á rekstri „heimilis fyrir aldraða“ svo eitthvað sé nefnt. Til þess eru skólastjórar og forstöðumenn ráðnir, þeir hafa þá sérfræðiþekkingu og sinna því hlutverki. Ef þeir hafa það ekki, þarf að styrkja þá í að sækja sér þá þekkingu eða leysa þann vanda með öðrum hætti.
Því vil ég spyrja, hver er sýn fólks í bæjarstjórn á starf leikskólakennara? Hvers virði er menntun þeirra, reynsla og þekking á námi og þroska barnanna okkar? Finnst okkur algjör óþarfi að viðra og eiga samtal við fagmenntað starfsfólk innan viðkomandi sviðs, áður en slíkar ákvarðanir eru teknar svo sem sú sem hér um ræðir?
Leikskólinn er fyrsta menntastig barnanna okkar og það er mikilvægt að við séum með fólk sem er hæft til að sinna því starfi og að starfsfólki leikskólans finnist það metið að verðleikum. Framkoman í þessu tilfelli, við þessa mikilvægu fagstétt er að mínu mati hrokafull og sorgleg og ég er sannfærð um að starfsmenn grunnskólans hér, hvort sem það er skólastjórinn, kennarar eða aðrir starfsmenn myndu ekki sætta sig við þá framkomu og vanvirðingu sem öllum starfsmönnum leikskólans hér hefur verið sýnd. Starfsmenn leikskóla eru langflestir starfandi þar af áhuga og metnaði, því sjaldan eru það launin sem laða fólk að.
Því vil ég biðla til bæjarbúa Ölfuss, hvort sem þeir eru með eða á móti Hjallastefnunni sjálfri, að íhuga þá framkomu sem starfsmönnum leikskólans hefur verið sýnd hér. Ánægja og líðan starfsmanna er mjög stór þáttur í heilbrigðu starfsumhverfi. Virða ber faglega sýn og þekking fagfólks í leikskólanum, rétt eins og hjá öðrum starfsstéttum. Ef fólk hefur áhyggjur af einhverjum atriðum á að vera hægt að laga það án þess að grípa til eins rótækra aðgerða eins og hér er gert, þegar ástæðan er sögð sú að gera góðan leikskóla enn betri. Með því langar mig að spyrja bæjarstjórn, hvað er það við Hjallastefnuna sem mun bæta leikskólann okkar svo um munar? Er kynjaskipting lykilatriði í þroska barna?
Ég er stolt af því hvernig leikskólinn sem ég starfa hjá, leikskólinn Reynisholt í Grafarholti, vinnur að starfsþróun leikskólans. Unnið er í teymum þar sem áherslur leikskólans eru ræddar vikulega, flesta mánudagsmorgna. Á teymisfundum er síðastliðin vika skoðuð, hvað var gert á hverri deild fyrir sig, hvað mætti betur fara og hvað gekk vel, einnig eru ný markmið sett fyrir komandi viku. Óskir og þarfir foreldrar fá rými í umræðunni enda þeirra sýn mikilvæg inn í menntun barna þeirra. Allir starfsmenn starfa í einu teymi, einn starfsmaður á hverri deild. Þannig höldum við áherslum okkar á lofti, allir fá að leggja sitt af mörkum og þannig þróast skólastefnan okkar þar sem þekking og reynsla allra starfsmanna er nýtt til hins ýtrasta.
Leikskólamál eru mér sérlega hugstæð, bæði faglega og persónulega, enda leikskólakennari að mennt með meistaragráðu í áhættuhegðun barna, auk þess að vera foreldri tveggja barna og þriðja barnið væntanlegt í nóvember. Mig langar þó að enda þetta bréf á jákvæðum nótum. Bæjarstjórnin hefur gert mjög margt gott á tímabilinu sem ég er mjög þakklát fyrir. Ég vil þakka fyrir að fimleikahúsið sem er að klárast, dóttir mín er í skýjunum með það. Ég vil líka hrósa þeim fyrir körfuboltavöllinn við Skrúðgarðinn sem og ærslabelginn, þar er alltaf líf og fjör. Hamingjan við hafið og ykkar útsjónasemi þar er alveg einstök (þótt Ása Berglind hafi eflaust verið með fingurna talsvert mikið í því plani) og dásamlegt að það verða svona margir fjölbreyttir viðburðir í allt sumar. Einnig finnst mér frábært að það sé komin rólóvöllur í Búðarhverfið.
Mér finnst samt bæjarstjórn skulda okkur íbúum, en þó sérstaklega foreldrum og starfsfólki leikskólans okkar, nánari skýringar og rökfærslur fyrir þessari ákvörðun. Ég vona að okkar efnilega fólk sem eru nýliðar í bæjarpólitíkinni dragi mikinn lærdóm af þessu ferli til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig. Ég hef líka fulla trú á því að okkar rótgrónu íbúar í bæjarstjórn vilji einungis það besta fyrir bæjarfélagið og íbúa þess.
Kv. Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir, leikskólakennari.