Afkoma hafnarinnar vaxið um 40 prósent milli ára

Afkoma Þorlákshafnar hefur vaxið um 40 prósent á milli ára þegar borinn er saman rekstur hafnarinnar fyrstu sjö mánuði 2019 og 2020. Frá þessu er greint í bókun Framkvæmda- og hafnarnefndar Ölfuss.

Hafnargjöld hækkuðu um 12 prósent árið 2020 og seld þjónusta um 22 prósent. Þá hækkar jafnframt rekstrarkostnaðurinn og munar þar mestu að launakostnaður hefur hækkað um 6 prósent.

Rekstrarniðurstaða hafnarinnar er um 23 milljónum betri eftir fyrstu sjö mánuði ársins 2020 en eftir sama tíma árið 2019.

Framkvæmda- og hafnarnefnd „fagnar því að sú áhersla sem sveitarfélagið hefur lagt á vöxt hafnarinnar skili sér í bættri niðurstöðu.“