Þór vann Keflavík í fyrsta leik

Þórsarar byrjuðu Icelandic Glacial mótið af krafti í gærkvöldi þegar þeir unnu Keflavík með 5 stigum í jöfnum leik.

Segja má að fyrsti og síðasti leikhlutinn voru lykillinn að sigri Þórsara en staðan að loknum fyrsta leikhluta var 26-17. Keflvíkingar komu sterkir til baka í öðrum og þriðja leikhluta og leiddu 61-65 fyrir lokafjórðunginn.

Þórsarar voru fljótir að jafna leikinn og komust yfir þegar ein mínúta var liðin af síðasta leikhlutanum. Eftir það héldu þeir áfram að bæta í forystuna og var munurinn mestur 11 stig í leiknum en Keflvíkingar náðu aðeins að klóra í bakkann í lokin og endaði leikurinn 90-85 Þórsurum í vil.

Larry Thomas var stigahæstur Þórsara í leiknum með 18 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar. Ragnar Örn Bragason, Adomas Drungilas og Callum Lawson settu allir 17 stig. Halldór Garðar gaf hvorki meira né minna en 13 stoðsendingar í leiknum og skoraði 8 stig. Styrmir Snær Þrastarson skoraði 5 stig, Emil Karel Einarsson og Davíð Arnar Ágústsson 3 stig hvor og Ísak Júlíus Perdue 2 stig.

Næsti leikur Þórsara í Icelandic Glacial mótinu er á sunnudaginn klukkan 16 þegar þeir mæta Grindavík.