Mjög mikilvægur sigur á Egilsstöðum

Ægismenn unnu mjög mikilvægan sigur á Hetti/Huginn þegar liðin mættust á Egilsstöðum í 3. deildinni í fótbolta fyrr í dag. Lokatölur urðu 2-4.

Fyrsta mark Ægis skoraði Atli Rafn Guðbjartsson á 15. mínútu en þannig var staðan eftir fyrri hálfleik.

Anton Breki Viktorsson kom Ægismönnum 0-2 á 48. mínútu leiksins en hann var svo aftur á ferðinni á 70. mínútu og staðan orðin 0-3. Höttur/Huginn minnkaði síðan muninn skömmu seinna þegar liðið skoraði tvö mörk á 5 mínútna kafla.

Það var svo fyrirliðinn Þorkell Þráinsson sem innsiglaði góðan sigur með marki þremur mínútum fyrir leikslok og lokastaðan 2-4 Ægismönnum í vil.

Eftir leikinn eru Ægismenn í 8. sæti deildarinnar með 20 stig. Næsti leikur liðsins er heimaleikur gegn toppliði KV laugardaginn næsta, 26. september.