Magnaður baráttusigur Hamar/Þór gegn Stjörnunni

Hamar/Þór vann magnaðan sigur á Stjörnunni þegar liðin mættust í áhorfendalausri Icelandic Glacial höllinni í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld. Leikurinn var þó í beinni útsendingu á vefsjónvarpsrás Þórs.

Stjörnukonur byrjuðu fyrsta leikhlutan af miklum krafti og leiddu 13-24 að honum loknum. Hamar/Þór snéru við blaðinu og áttu mjög góðan annan leikhluta og staðan 37-38 Stjörnunni í vil í hálfleik.

Munurinn var aldrei mikill á milli liðanna í seinni hálfleik en Hamar/Þór voru þó alltaf að elta Stjörnuna. Þegar ein mínúta lifði leiks komust Hamar/Þór yfir í fyrsta sinn í leiknum 74-72 og héldu þær forystunni út leikinn og lokatölur urðu 77-74 Hamar/Þór í vil eftir æsispennandi lokamínútur.

Magnaður sigur Hamar/Þór sem hafa nú unnið tvo leiki í röð í 1. deildinni. Ekki er fyrirséð hvenær næsti leikur liðsins verður en heil­brigðisráðherra hef­ur fall­ist á til­lög­ur sótt­varna­lækn­is um að stöðva keppnisíþróttir innandyra um stund og gilda þær tak­mark­an­ir til 19. októ­ber.

Fallyn Elizabeth Ann Stephens var frábær í liði Hamar/Þór með 37 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar. Gígja Marín Þorsteinsdóttir skoraði 13 stig og Hrafnhildur Magnúsdóttir var mjög nálægt þrefaldri tvennu, með 10 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar. Ása Lind Wolfram skoraði 8 stig, Þórunn Bjarnadóttir 7 stig og 10 fráköst og Helga María Janusdóttir skoraði 2 stig.