Digiqole ad

Vilja byggja upp æfinga- og upptökuaðstöðu

 Vilja byggja upp æfinga- og upptökuaðstöðu

Mynd tekin á stofnfundi Hljómlistafélgas Ölfuss. Ljósm: Ása Berglind

Síðasti viðburður Þollóween 2020 verður laugardagskvöldið 31. október þegar Hljómlistafélag Ölfuss stendur fyrir tónleikum sem verða sendir út beint í gegnum facebook síðu þeirra

Það verður mikið lagt í þessa tónleika, bæði tæknilega og músíklega séð, með nokkrum myndavélum og fyrsta flokks hljóðvinnslu. Það vita það ef til vill ekki allir en einn fremsti hljóðmaður landsins á heima í Þorlákshöfn, Jón Þorleifur Steinþórsson, betur þekktur sem Jón Skuggi. Hann sér um að allt hljóð berist til ykkar eins og best er á kostið og svo er það okkar eigin Róbert Dan sem sér um myndvinnslu. Þollóween nefndin er búin að setja sviðið í Versölum í réttan Þollóween búning svo umgjörðin verður ekkert slor.

Tónlistarfólkið sem kemur fram á tónleikunum á allt rætur sínar að rekja til Þorlákshafnar með einum eða öðrum hætti og þau eru:
Óttar Ingólfsson
Guðjón Axel Jónsson
Arna Dögg Sturludóttir
Bergrún Gestsdóttir
Stefán Þorleifsson
Auður Magnea Sigurðardóttir
Steini Lýðs og Helgi Georgs 
Emilía Hugrún Lárusdóttir
Tómas Jónsson
Anna Margrét Káradóttir sem sér einnig um kynningar. 

Safna fyrir uppbyggingu á æfinga- og upptökuaðstöðu

Allir sem koma að framkvæmd þessa tónleika eru meðlimir í Hljómlistafélagi Ölfuss og með tónleikunum langar félaginu líka að vekja athygli á markmiðum þess. En Hljómlistafélag Ölfuss ætlar að byggja upp æfinga- og upptökurými fyrir tónlistarfólk í Ölfusi. Þar verður hægt að aðstoða ungt fólk sem vill setja saman hljómsveitir, semja, taka upp og læra á hljóðfæri auk þess sem fullorðið tónlistaráhuga- og atvinnufólk getur nýtt aðstöðuna til að setja saman hljómsveitir, æfa sig og taka upp tónlist. Svona aðstaða mun án efa einnig gagnast þeim tónlistarhópum sem fyrir eru, hvort sem það eru kórarnir, Lúðrasveit Þorlákshafnar eða Leikfélag Ölfuss svo eitthvað sé nefnt. Mikil þörf er á svona húsnæði í sveitarfélaginu og fullvíst að það yrði vel nýtt enda blómlegt tónlistarlíf í Þorlákshöfn og víðar í Ölfusi.

Hljómlistafélagið er nú þegar búið að sækja um styrki á nokkrum stöðum fyrir framkvæmdinni sem er frekar kostnaðarsöm, en langar líka að gefa íbúum í Sveitarfélaginu Ölfusi og öðrum áhugasömum kost á að styrkja félagið í þessu metnaðarfulla verkefni og tekur því fagnandi á móti frjálsum framlögum.

Hægt er að leggja inn á reikning Þollóween sem kemur upphæðinni áfram á Hljómlistafélag Ölfuss þegar það eignast bankareikning. 
Kt. 621018-1400
0152-26-020020

Endilega merkið við mæti/going á viðburðinn á Facebook, þá fáið þið tilkynningu þegar beina útsendingin hefst kl. 20.