Auður Helga íþróttamaður Ölfuss 2020

Auður Helga er fædd árið 2005 og því á 16. aldursári. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún náð ótrúlegum árangri á íþróttasviðinu og er framúrskarandi og einstaklega fjölhæf íþróttakona. Hún er í ár tilnefnd af Knattspyrnufélaginu Ægi fyrir knattspyrnu og af íþrótta- og tómstundanefnd fyrir fimleika en auk þessara tveggja greina hefur Auður Helga átt góðu gengi að fagna á frjálsíþróttavellinum undanfarin ár.

Hún hefur frá því hún fór 11 ára gömul að keppa um Íslandsmeistaratitla orðið Íslandsmeistari í sínum aldursflokki í 60 m hlaupi, langstökki, hástökki og spjótkasti, alls 7 sinnum. Þá eru ótaldir fjölmargir sigrar á Unglingalandsmótum og öðrum minni mótum. Það sem einkennir Auði Helgu á frjálsíþróttavellinum er prúðmannleg framkoma og gríðarlegt keppnisskap og er hún einstaklega hvetjandi liðsfélagi og mikilvægur stuðningur fyrir aðra keppendur.

Í umsögn Knattspyrnufélagsins Ægis segir:

Auður Helga er mjög hæfileikarík og frábær fótboltastelpa. Auður byrjaði að æfa knattspyrnu þegar hún var átta ára gömul og hefur sýnt stöðugar og miklar framfarir alla tíð, enda hefur hún mikinn metnað fyrir því að standa sig vel í því sem hún tekur sér fyrir hendur í knattspyrnunni. Auður Helga þykir mjög leikin og fylgin sér á velli og leggur sig ávallt 100% fram í æfingum og keppni. Auður Helga hefur verið valin í úrtakshóp KSÍ undanfarin ár og staðið sig þar með stakri prýði. Ef fram fer sem horfir mun Auður Helga skipa sæti í framtíðar landsliðum kvennaknattspyrnu hér á landi.

Og við þessa umsögn má bæta að Auður Helga var einmitt á dögunum valin í leikmannahóp til landsliðsæfinga í U 16 kvenna. Um er að ræða 28 leikmenn sem koma víða af landinu.

Í umsögn íþrótta- og tómstundanefndar segir:

Auður Helga æfir með 1.flokki kvenna hjá Fimleikadeild Umf. Selfoss og hefur æft fimleika hjá deildinni um nokkurra ára skeið. Hún hefur verið lykilmanneskja í sínu liði frá því hún steig fyrst á keppnisgólfið.

Hún er hógvær, metnaðarfull og samviskusöm á æfingum og í keppni og hefur allt sem þarf til að komast alla leið í íþróttinni. Hún er einstaklega hæfileikarík og stendur sig vel í hverju því sem sem hún tekur sér fyrir hendur á íþróttasviðinu og er meðal þeirra bestu í hópfimleikum á Íslandi í dag.

Auður Helga er í úrvalshóp unglinga og stefnir ásamt liði sínu á Evrópumót í hópfimleikum. Lið Selfoss, með Auði Helgu í fararbroddi er núverandi Íslandsmeistari í 1.flokki og á hún án vafa stóran þátt í þeim árangri.

Af því sem hér hefur verið sagt má sjá að Auður Helga Halldórsdóttir er hógvær, hæfileikarík, metnaðarfull og einstaklega dugleg íþróttakona sem náð hefur framúrskarandi árangri í þremur íþróttagreinum. Hún er því vel að titlinum komin. Til hamingju Auður Helga.

Eftirfarandi íþróttamann fengu einnig viðurkenningu fyrir góðan árangur á árinu:

Óskar Gíslason fyrir golf, Halldór Garðar Hermannsson fyrir körfuknattleik, Viktor Karl Halldórsson fyrir frjálsar íþróttir, Gyða Dögg Heiðarsdóttir fyrir akstursíþróttir og Glódís Rún Sigurðardóttir fyrir hestaíþróttir.