Þórsarar fóru létt með Íslandsmeistara KR

Þórsarar gerðu heldur betur góða ferð í Vesturbæ Reykjavíkur í gærkvöldi þegar þeir unnu stórsigur á sexföldum Íslandsmeisturum KR.

Lokatölur urðu 77-107 en Þórsarar leiddu mest með 42 stigum í leiknum og áttu KR-ingar engin svör við frábærum varnar- og sóknarleik Þórsara sem hafa núna unnið Stjörnuna, ÍR og KR í síðustu þremur leikjum sínum.

Allir leikmenn Þórs spiluðu í kvöld og gat Lalli þjálfari hvílt marga leikmenn og til að mynda spilaði Emil Karel mest allra leikmanna liðsins með rúmar 22 mínútur.

Larry Thomas var frábær í liði Þórs með 29 stig þar sem hann setti niður 9 af 12 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Callum Lawson var flottur með 17 stig og tók 14 fráköst. Þá átti Styrmir Snær enn einn frábæran leik með 13 stig og Halldór Garðar sömuleiðis flottur með 13 stig. Eins og á móti ÍR þá skoruðu allir tólf leikmenn Þórs í þessum leik.