Brimbrettafélag Íslands hefur hrundið af stað undirskriftarlista þar sem brimbrettaiðkendur skora á Sveitarfélagið Ölfus um að endurskoða staðsetningu á fyrirhugaðri stækkun á höfninni í Þorlákshöfn en með breytingunum mun brimbrettasvæðið við útsýnispallinn verða undir.
„Til stendur að byggja við höfn Þorlákshafnar sem mun gera það að verkum að einn áreiðanlegasti og vinsælasti brimbrettastaður á Íslandi muni eyðileggjast. Við undirrituð viljum vernda aðalbrotið í Þorlákshöfn og fá það skilgreint sem útivistarsvæði. Þorlákshöfn er heimsklassa brimbrettastaður og með fyrirhuguðum breytingum á hafnarsvæðinu í kring mun hann eyðileggjast,“ segir á undirskriftarlista Brimbrettafélags Íslands.
Um miðjan desember síðastliðinn var tryggð fjármögnun ríkisins við stækkun hafnarinnar eins og hún er framsett í fjármálaáætlun. Heildar kostnaður framkvæmdanna getur numið hátt í 4 milljörðum króna þegar allt er til talið og mun þá höfnin geta tekið inn allt að 180 metra löng og 30 metra breið skip.
„Búast má við að þá strax muni þriðja vöruflutningaferjan bætast við og allar líkur fyrir því að sú ferja flytji einnig farþega og einkabíla,“ sögðu bæjarfulltrúar meirihlutans í aðsendri grein eftir að fjármögnun ríkissins á framkvæmdinni var tryggð.
Brimbrettaiðkendur eru ekki sáttir með breytinguna á deiliskipulaginu en þar mun hluti svæðisins hverfa undir athafnasvæði og nýja og stærri Suðurvararbryggju eins og meðfylgjandi mynd sýnir:
„Þorlákshafnaraldan er miðstöð brimbrettamenningar á Íslandi og í augum brimbrettaiðkenda náttúruperla. Við vonum að bæjarfélagið Ölfus geti unnið með þeim sem stunda þessa íþrótt svo hægt sé að finna aðrar leiðir við breytingar á hafnarsvæðinu.“