Mikil fjölgun í Ölfusi

Fáum dylst, þegar farið er um Sveitarfélagið Ölfus, sá mikli vöxtur sem þar á sér stað. Á það ekki síst við um þéttbýlið í Þorlákshöfn. Hvarvetna má sjá framkvæmdir. Einbýlishús í bland við fjölbýlishús og iðnaðarhúsnæði í bland við athafnasvæði. 

Samhliða þessum miklu framkvæmdum hefur íbúum fjölgað hratt og er nú svo komið að þeir telja 2.386 manns. Á rúmum tveimur árum hefur þeim fjölgað um rúmlega 10%. Elliði Vignisson bæjarstjóri segir að auðvitað sé þetta í senn ánægjulegt og krefjandi. „Það er ekki annað að sjá en að áframhaldandi fjölgun verði. Bara síðan 1. des sl. hefur íbúum fjölgað um 47 eða 2%. Til samanburðar fjölgaði íbúum í Árborg um 0,6% og Hveragerði um 0,2% á þessum tíma.  Það fer því hvergi á milli mála að Ölfusið er vinsælt til búsetu og þá ekki síst hér í Þorlákshöfn þar sem vöxturinn er mestur.“ 

Svipaða sögu er að segja um dreifbýlið þótt þar þar sé fjölgunin ekki með sama sniði. „Það má segja að það gangi vel bæði í dreifbýli og þéttbýli. Við sjáum samt glögglega að það er nokkur munur á vextinum í hér í Þorlákshöfn annars vegar og svo sveitinni. Til að einfalda málið má segja að barnafólk velji sér frekar búsetu í Þorlákshöfn en eldra fólk, oft þá með uppkomin börn, kjósi sveitina. Sjálfsagt á þetta margskonar skýringar en ein þeirra er án efa sú mikla þjónusta sem börn og fjölskyldur þeirra njóta í Þorlákshöfn.“ 

Að sögn Elliða ræður sveitarfélagið vel við þennan vöxt. „Jájá, við ráðum vel við þetta.  Auðvitað hriktir aðeins í. Þannig er leikskólakerfið hjá okkur að nálgast það að biðlistar séu lengri en hægt er að sætta sig við. Sú stækkun á Bergheimum sem nú er í undirbúningi kemur til með að bæta ástandið, en meira þarf til.  Þess vegna erum við þegar að hefja undirbúning að byggingu nýs leikskóla samhliða hönnun á nýju hverfi hér vestan Berganna. 

Það hefur líka fjölgað mjög hratt í grunnskólanum okkar og ljóst að við þurfum að stækka hann á næstu árum. Við erum einnig í samstarfi við Hveragerðisbæ um stækkun á grunnskólanum þar og lengi má áfram telja“  Til viðbótar nefnir Elliði að áframhaldandi uppbygging liggi fyrir í málefnum eldri borgara, menningarlífi, á sviði hafnarinnar, í veitumálum og nánast hvar sem litið er.  „Það gengur vel og íbúar eiga að njóta þess“, segir bæjarstjórinn.