Bergrisinn, surf- og strandhátíð á laugardaginn

Bergrisinn er einn af landvættunum fjórum, sá sem verndaði Suðurland og kom upp úr sjónum í fjörunni í Þorlákshöfn. Það er því vel við hæfi að Surf- og strandarhátíð Þorlákshafnar skuli bera nafnið Bergrisinn.

Bergrisinn verður haldinn laugardaginn 3. júlí og er liður í dagskrá í tilefni 70 ára afmælis þéttbýlis í Þorlákshöfn, en hátíðarhöld verða fyrstu helgi hvers mánaðar út árið að því tilefni eins og áður hefur komið fram.

Dagskrá Bergrisans samanstendur af fjölmörgum viðburðum fyrir alla fjölskylduna þar sem fjölbreytt afþreying sem tengist fjöru, sjó og menningu verður í boði. Má þar nefna kynningu á bæði sjósundi og sjóbrettum, sjósund undir leiðsögn Ernu Héðinsdóttur og áhugasömum gefst kostur á að prófa sjóbretti í sundlauginni undir leiðsögn hjónanna Láru og Jóhannesar.

Fjöruhlaup hefst kl. 15 þar sem tvær vegalengdir eru í boði og sá/sú sem klárar þær leiðir á besta tímanum fær 15.000 kr. gjafakort frá Stúdíó Sport. Nánari upplýsingar og skráning í hlaupið er að finna hér: https://forms.gle/W8MLudy87WxMpNRw8. Þá verður sandkastalagerð, strandblak, skráning hér: https://forms.gle/uR95B2DEL4mDPS7F7 og fjöru jóga í boði Jógahornsins, listasmiðja við vitann og fleira.

Prjónarar hvattir til að koma með prjónana sína og útilegustól að Hafnarnesvita kl. 16 og eiga þar góða prjónastund í kyngimögnuðu umhverfi. Kvöldið endar á matarvögnum frá Reykjavík street food og tónleikum við Hafnarnesvita þar sem tvær virkilega efnilegar hljómsveitir úr heimbyggð koma fram. Það eru hljómsveitirnar Moskvít og Sunnan 6 ásamt gestasöngkonunum Evu Þórey og Emilíu Hugrúnu.

Allir viðburðir eru fólki að kostnaðarlausu fyrir utan matarvagna og aðgangseyrir í sund. Veðurspáin er virkilega góð og allir eru hjartanlega velkomnir. Allar nánari upplýsingar eru á facebook síðunni Hamingjan við hafið.