Digiqole ad

Slysavarnadeildin Sigurbjörg stofnuð í Þorlákshöfn

 Slysavarnadeildin Sigurbjörg stofnuð í Þorlákshöfn

Stofnuð hefur verið Slysavarnadeildin Sigurbjörg í Þorlákshöfn. Björgunarsveitin Mannbjörg er ekki hætt störfum en þetta nýja félag er ætlað að veita þeim stuðning. Tilgangurinn er að vinna að öflugu forvarnarstarfi í þorpinu, auk þess tekur félagið þátt í forvarnarstarfi Landsbjargar á Suðurlandi.

Þegar Hafnarfréttir náði tali af Maríu Jónasdóttir, einum af stofnendum félagsins kom fram að markmiðið með stofnun þessa nýja félags sé að hjálpa björgunarsveitinni með því að sjá um það sem snýr að slysavörnum og fjáröflunum til að björgunarsveitin geti einbeitt sér að útkölllum og björgunarstarfi.

„Við erum líka að reyna að auglýsa bæði björgunarsveitina og slysavarnadeildina til að fá nýtt fólk inn,“ bætir María við.

Stofnfundur var haldin í björgunarsveitarhúsinu við Hafnarskeið síðastliðið mánudagskvöld. Þar voru ræddar hugmyndir að fjáröflunum og slysavörnum sem og starfið kynnt. Þrettán eru skráð í deildina nú þegar.

Bent er á að hægt er að skrá sig með þrennum hætti í deildina:
Sá/sú sem tekur fullan þátt í sarfinu, mætir á alla fundi og atburði, Sá/sú sem mætir á aðalfundi og einstaka atburði þegar hann getur, svo þeir sem vilja aðstoða og baka þegar þess þarf.

Rétt er að geta þess að félagið heldur vöffulkaffi næstkomandi laugardag, 3. júlí í húsnæði björgunarsveitarinnar.