Mikilvægur sigur Ægismanna í toppbaráttunni

Ægismenn unnu sterkan sigur á Elliða í 3. deild karla í fótbolta á Þorlákshafnarvelli í gærkvöldi. Með sigrinum er liðið í 2. sæti deildarinnar með 23 stig en KFG og Augnablik eiga leik til góða með 22 og 21 stig.

Leikurinn var í raun aldrei í hættu og voru Ægismenn 3-0 yfir í hálfleik. Alexander Aron Davorsson skoraði fyrsta marki Ægis á 18. mínútu og undir lok fyrri hálfleiks bættu Stefan Dabetic og Brynjólfur Þór Eyþórsson við einu marki hvor.

Elliði minnkaði muninn í 3-1 þegar tíu mínútur lifðu leiks en Pétur Smári Sigurðsson gulltryggði sigur Ægismanna með marki á lokamínútu leiksins og mikilvægur 4-1 sigur staðreynd.

Næsti leikur Ægismanna er heimaleikur gegn Dalvík/Reyni á miðvikudaginn, 28. júlí.