Markaðsstemning og jólaleikrit 1. desember

Þrátt fyrir ástandið þá ætla Þorlákshafnarbúar og gestir að gera sér glaðan dag innan allra tilsettra takmarkanna á miðvikudaginn, 1. desember.

Glæsilegur markaður verður í Versölum á vegum Slysavarnafélagsins Sigurbjargar þar sem um 25 aðilar verða með kynningu og sölu á sínum vörum. Cafe Sól verður með opið fram á kvöld og býður bæði uppá tónlistaratriði og vörukynningu. Á Thai Sakhon verður hægt að fá sér ískaldan jólabjór á krana á tilboði, VISS verður með opið á milli kl. 18-21 og mikið af glæsilegum handunnum vörum og síðast en ekki síst verður jólaævintýraleiksýning í Skrúðgarðinum.

Sýningin er á vegum leikhóps sem einnig stendur á bakvið leikhópinn Lottu og hefur fram að þessu einungis verið í Guðmundarlundi í Kópavogi en koma nú í fallega Skrúðgarðinn okkar. Sýningin er fyrir alla fjölskylduna (foreldrar og/eða ömmur og afar koma að sjálfsögðu með börnum sínum). Allir koma með vasaljós með sér og ganga um garðinn eftir leiðsögn og á vegi þeirra verða allskonar ævintýraverur sem tengjast íslenskri jólahefð.

Leiksýningin er 50 mínútur og það er enginn aðgangseyrir þar sem hún er hluti af dagskrá í tilefni 70 ára afmælis Þorlákshafnar en nauðsynlegt er að panta sér miða og er það gert í gegnum slóð sem finna má á viðburðinum á facebook. https://www.facebook.com/events/193226966305986

Því miður var ekki hægt að halda hefðbundna jólatrésskemmtun þar sem 50 manna fjöldatakmarkanir gilda einnig utandyra, en engu að síður verður kveikt á jólatrénu þennan dag. Þá verða jólasveinar á ferð um bæinn milli klukkan 18 og 19.