Ægismenn styrkja hópinn fyrir átökin í 2. deild

Ægismenn eru á fullu þessa dagana að styrkja leikmannahóp sinn fyrir komandi átök í 2. deildinni í fótbolta en liðið tryggði sér sæti í deildinni í sumar.

Fyrst ber að nefna þjálfarateimið en Ægismenn hafa framlengt samningum við þá Nenad, Baldvin og Aco um áframhaldandi þjálfun liðsins. Þeir hafa stýrt Ægisliðinu síðastliðin þrjú tímabil en þeir tóku við liðinu fyrir sumarið 2019, þegar félagið var komið í neðstu deild. Undir stjórn þeirra vann liðið 4. deildina örugglega á fyrsta tímabili, árið 2020 tókst þeim að byggja ofan á árið á undan og sigla liðinu um lygnan sjó í 3. deildinni og taka svo enn eitt framfaraskrefið þetta árið þegar liðið tryggði sér sæti í 2. deild.

Þá hafa Stefan Dabetic og Dimitrije Cokic framlengt samningum sínum við Ægi um eitt ár. Stefan er 33 ára gamall hafsent sem hefur leikið 70 leiki fyrir Ægi í deild og bikar og skorað í þeim 15 mörk, sem er annsi gott fyrir varnarmann. Dimitrije er fjölhæfur leikmaður og spilaði stóran þátt í velgengni Ægismanna í sumar. Hann spilaði 23 leiki í deild og bikar og skoraði tvö mörk.

Anton Breki Viktorsson hefur skipt yfir til Ægis en hann hefur spilað fyrir Ægi síðastliðin þrjú tímabil sem lánsmaður frá Selfossi. Anton hefur spilað 48 leiki í deild og bikar fyrir Ægi og skorað í þeim 5 mörk. Hann er fjölhæfur leikmaður og getur leyst allskonar hlutverk bæði á miðju og í vörn.

Lykilmenn framlengja

Síðast en ekki síst þá hafa fimm lykilmenn framlengt samningum sínum, þeir Þorkell Þráinsson, Ragnar Páll Sigurðsson, Stefán Blær Jóhannsson, Brynjólfur Þór Eyþórsson og Arilíus Óskarsson.

Þorkell er varnarmaður sem er fæddur árið 1994 og hefur verið fyrirliði okkar síðustu árin. Hann á 187 leiki í deild og bikar þar sem hann hefur skorað 20 mörk.

Ragnar er varnar og miðjumaður sem er fæddur árið 2000. Hann kom til Ægis frá Leikni Reykjavík fyrir tímabilið 2020. Ragnar hefur spilað 40 leiki í deild og bikar á þessum tveimur tímabilum.

Stefán er stór og stæðilegur markvörður fæddur árið 2000 sem hefur verið hjá Ægismönnum síðan fyrir tímabilið 2020. Hann hefur spilað 15 leiki fyrir félagið, þar af 14 leiki í sumar.

Brynjólfur er sóknarmaður sem er fæddur árið 2001 og kom til Ægis frá Selfossi fyrir tímabilið 2020. Hann hefur síðan þá spilað 44 leiki fyrir Ægi í deild og bikar og skorað 15 mörk, þar af 11 núna í sumar.

Arilíus er fjölhæfur leikmaður sem er fæddur árið 1998. Hann kom til Ægismanna fyrir sumarið, hann spilaði 22 leiki í deild og bikar og skoraði í þeim 2 mörk.