Frábær seinni hálfleikur skóp öruggan sigur

Íslandsmeistarar Þórs unnu öruggan sigur á nöfnum sínum frá Akureyri þegar liðin mættust í Icelandic Glacial höllinni í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Íslandsmeistararnir leiddu með þremur stigum í hálfleik.

Þorlákshafnardrengirnir mættu svo vel gíraðir til leiks í seinni hálfleik og hreinlega völtuðu yfir Akureyringa með frábærum sóknar- og varnarleik. Lokatölur urðu 110-81.

Glynn Watson var stigahæstur Þórsara með 24 stig og 12 stoðsendingar. Daniel Mortensen skoraði 21 stig og Davíð Arnar bætti við 16. Ronaldas Rutkauskas var framlagshæsti leikmaður Þórsara en hann tók hvorki meira né minna en 21 frákast og skoraði 8 stig.

Luciano Nicolas Massarelli skoraði 11 stig, Tómas Valur og Ragnar Örn skoruðu 9 stig hvor og Emil Karel bætti við 7 stigum. Ísak Júlíus skoraði 3 stig og Jónas Bjarki 2.

Eftir sigur kvöldsins eru Íslandsmeistarar Þórs á toppi deildarinnar með 12 stig eftir sjö umferðir en liðið hefur nú unnið 6 leiki í röð.