1.118 umsóknir í 34 lóðir í Þorlákshöfn

Í dag lauk umsóknarfresti um 34 lóðir sem auglýstar voru í nýju hverfi í Þorlákshöfn.  Alls bárust 1.118 umsóknir um lóðirnar og þarf því að draga á milli áhugasamra.

Elliði Vignisson bæjarstjóri segir að hann hafi sannarlega átt von á miklum áhuga en þetta fari langt fram úr þeim væntingum sem hann hafði. „Við höfum sannarlega fundið fyrir vaxandi áhuga á samfélaginu hér og auðvitað sagði það ákveðna sögu þegar upp kom sú staða fyrir fáeinum dögum að ekki ein einasta fasteign var til sölu í sveitarfélaginu. Á sama tími áttum við engar lóðir og það sennilega án fordæma að jafn stórt bæjarfélag og okkar sé uppselt. Áhuginn á lóðunum var því viðbúin en ekki svona mikill.“

Lóðirnar sem um ræðir eru í svokölluðu Vesturbergi sem verið er að byrja á við vesturenda Selvogsbrautar. Í fyrsta áfanga eru 4 smáfjölbýli, 18 raðhús og 13 einbýli og segir Elliði að ásóknin hafi verið nokkuð jöfn. „Það er mikil samkeppni um allar lóðir og líklegt að við verðum að finna nýjar leiðir til að úthluta þeim. Í gegnum tíðina hefur sjaldnast þurft að velja á milli umsækjenda en upp á síðkastið hefur okkur dugað spilastokkur, eða reyndar bara ein sort, til að draga á milli.  Nú er sem sagt sú staða að okkur dugar ekki einu sinni allar sortirnar enda bara 52 spil í stokknum.  Við þurfum því að finna nýjar leiðir, sem er ekkert nema spennandi. “  

Elliði segir að svo gleðilegur sem þessi áhugi sé þá sé hann líka ákveðin áskorun. „Við erum hér með mikið gæða samfélag í höndunum þar sem íbúar mælast þeir ánægðustu á landinu öllu. Það er staða sem við ætlum að verja. Um leið viljum við bjóða nýja íbúa velkomna. Ég reikna því með því að við ráðumst beint í næsta áfanga og getum innan fárra vikna boðið fleiri lóðir auk þess sem framkvæmdum við nýjan leikskóla og annarri innviðauppbyggingu verður flýtt.