Auður Helga með stórkostlegan árangur á EM

Auður Helga Halldórsdóttir hefur átt frábært mót á EM í fimleikum sem fór fram í Portúgal en þar keppti hún með stúlkna landsliðinu sem bætti árangur sinn úr undankeppninni um fjögur stig. Stúlkurnar enduðu með 54.200 stig. Ekki munaði nema 0.1 stigi á Íslandi og sænska liðinu sem fór heim með Evrópumeistaratitilinn með 54.300 stig.

Stelpurnar geta þó borið höfuðið hátt enda fóru þær í gegnum úrslitin án þess að gera nein stór mistök og er framtíðin svo sannarlega björt í íslenskum hópfimleikum.

Til viðbótar þá hlaut Auður Helga verðlaun sem efnilegasti keppandinn úr hópi þeirra sem kepptu í unglingaflokkum allra landa.

Við óskum Auði innilega til hamingju með árangurinn.