Þórsarar í undanúrslit eftir æsispennandi leik

Þórsarar eru komnir í undanúrslit í bikarkeppni karla í körfubolta eftir sigur á ÍR eftir mikinn spennuleik.

Heimamenn í ÍR byrjuðu leikinn mun betur og leiddu 26-18 eftir fyrsta leikhluta. Meira jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta en heimamenn leiddu þó 46-38 í hálfleik.

Allt annað var að sjá til Íslandsmeistaranna í seinni hálfleik og náðu þeir að minnka muninn í eitt stig þegar þriðja leikhluta var lokið.

Fjórði leikhlutinn var járn í járn og skiptust liðin á forystu. Eftir mikla dramatík og háspennu skoruðu Þórsarar síðustu þrjú stig leiksins og tryggðu sér þar með 77-79 sigur.

Tölfræði Þórsara: Luciano Massarelli 19 stig, Daniel Mortensen 19 stig og 5 fráköst, Ronaldas Rutkauskas 12 stig og 7 fráköst, Glynn Watson 12 stig, 14 fráköst og 8 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 9 stig og Davíð Arnar Ágústsson 8 stig.