Stórkostlegir Þórsarar fóru létt með Tindastól

Íslandsmeistarar Þórs voru stórkostlegir í kvöld þegar þeir unnu stórsigur á Tindastól á Sauðárkróki fyrr í kvöld, 66-109.

Þórsarar léku við hvurn sinn fingur í þessum leik og Tindastólsmenn sáu aldrei til sólar.

Stigaskor Þórsara dreifðist vel og skoruðu sjö leikmenn í liði Þórs yfir 10 stig. Glynn Watson var algjörlega frábær með 25 stig, 12 stoðsendingar og 5 fráköst. Hann var með framlag upp á 38 stig.

Luciano Massarelli skoraði 17 stig og gaf 6 stoðsendingar, Daniel Mortensen 14 stig og tók 8 fráköst og Davíð Arnar Ágústsson setti 12 stig. Ronaldas Rutkauskas, Emil Karel Einarsson og Ragnar Örn Bragason settu allir 10 stig í leiknum. Þá bætti Tómas Valur Þrastarson 6 stigum og Ísak Júlíus Perdue skoraði 5.