Frábær sigur í Grindavík dugði ekki til – Úrslitakeppnin framundan

Þórsarar unnu öruggan sigur á Grindavík í Grindavík í kvöld í lokaleik deildarkeppninnar í úrvalsdeild karla í körfubolta. Lokatölur urðu 93-105.

Sigurinn dugði þó ekki til að tryggja deildarmeistaratitilinn þar sem Njarðvík vann Keflavík á sama tíma í kvöld og urðu þeir deildarmeistarar með betri innbyrðis stöðu á Þór.

Davíð Arnar Ágústsson var frábær í kvöld með 23 stig. Ronaldas Rutkauskas skoraði 17 stig, Daniel Mortensen bætti við 15 stigum og tók 7 fráköst. Glynn Watson skoraði 14 stig, gaf 7 stoðsendingar og tók 6 fráköst. Emil Karel Einarsson skoraði 11 stig, Ragnar Örn Bragason 9, Tómas Valur Þrastarson 6. Luciano Nicolas Massarelli skoraði 3 stig en gaf hvorki meira né minna en 11 stoðsendingar og tók 8 fráköst!

Úrslitakeppnin er handan við hornið og munu Þórsarar mæta Grindvíkingum í 8-liða úrslitum.