Þórsarar komnir í 1-0

Þórsarar eru komnir 1-0 yfir í 8-liða úrslitum úrvalsdeildar karla í körfubolta eftir ótrúlegan baráttusigur gegn Grindavík í fyrsta leik sem fram fór í Þorlákshöfn í gærkvöldi.

Þórsarar byrjuðu leikinn betur en Grindvíkingar komu sterkir til baka og leiddu í hálfleik 45-50.

Gífurleg spenna var í seinni hálfleik og hélt Grindavík forskotinu allt þar til tæpar fimm mínútur voru eftir af leiknum en Þórsurum tókst þá að jafna leikinn í 78-78. Þór komst svo yfir og þá var ekki aftur snúið og lönduðu 93-88 sigri eftir frábæran endasprett.

Daniel Mortensen var stigahæstur Þórsara í kvöld með 23 stig, Ronaldas Rutkauskas skoraði 22 og tók 15 fráköst, Luciano Massarelli skoraði 15 stig og sendi 9 stoðsendingar og þeir Glynn Watson og Emil Karel Einarsson skoruðu báðir 13 stig.

Leikur tvö fer fram í Grindavík á laugardaginn klukkan 19:15.