Fjórum árum síðar

Fyrir fjórum árum varð breyting hjá mér og fjölskyldu minni. Eftir kosningar 2018 var skipt um meirihluta í Vestmannaeyjum og við okkur blasti kærkomið tækifæri til að gera breytingar en þar hafði ég þá verið bæjarstjóri í 12 ár og bæjarfulltrúi í 16 ár. Í framhaldi af því sótti ég um starf sem bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Ölfusi og eftir viðtal ma. við ráðningastofuna Hagvang var ég ráðinn starfsmaður þessa magnaða samfélags. Núna 4 árum síðar höfum við komið okkur upp hér framtíðarheimili.

Meining mín var að halda mér til hlés

Í aðdraganda komandi kosninga leituðu fulltrúa D-lista til mín um að verða bæjarstjóraefni þeirra. Það var auðsótt enda samstarfið gengið afar vel og árangurinn góður. Meining mín var að halda mig að öðru leyti til hlés og eftirláta frambjóðendum allra framboða sviðið. Frambjóðendur hinna tveggja framboðana hafa nú ítrekað kallað eftir þátttöku minni með því að gera mig að þungamiðju í ýmsum málum, rétt eins og ég sé í framboði eða hafi verið kjörinn fulltrúi seinustu 4 ár. Mér er því ljúft að bregðast við með því að auka þátttökuna. Þykir í raun vænt um að fá tækifærið til slíks samtals, bæði í ræðu og riti.

Lítilmannlegt að halla máli gagnvart fólki sem er að gera sitt besta

Á fjórum árum hef ég aldrei hallað máli gagnvart forvera mínum starfi. Aldrei talað niður það sem áður hefur verið gert. Þvert á móti hef ég reynt að sýna þeim sem á undan hafa gengið tilhlýðilega virðingu og því kemur orðræða þeirra núna mér á óvart. Í viðtalið 17. ágúst 2018, eftir að ég hafði nýlega tekið við sagði ég til að mynda: „Að sögn Elliða er hann að taka við mjög góðu búi af forvera sínum í starfi, Gunnsteini Ómarssyni og því séu engar afsakanir til að standa sig ekki vel á komandi árum“. ( Á erfitt með að sofna á kvöldin útaf öllum tækifærunum í Ölfusi – Hafnarfréttir (hafnarfrettir.is)). Þetta er það sem mér þykir rétt að gera en ætlast þó ekki til þess að aðrir geri það einnig.

Lítilmannlegt að halla máli gagnvart fólki sem er að gera sitt besta

Það sem ég hef hinsvegar ekki skilning á eru persónulegar árásir og rík þörf fyrir að tala allt niður það þykir mér hreinlega ömurlegt og óttast mjög slík áhrif í samfélaginu. Bjartsýni, kjarkur, þor og baráttugleði fyrir sitt samfélag er í mínum huga betra veganesti. Þannig vil ég núna koma inn í samtalið í aðdraganda komandi kosninga.

Það gengur vel

Staðreyndin er sú að seinustu ár hefur samfélaginu okkar gengið vel. Íbúum hefur fjölgað verulega, atvinnulífið styrkst, þjónusta hefur verði aukin, gjöld hafa verið lækkuð og reksturinn stendur afar sterkt. Fjárfestingar hafa verið miklar sem skila framtíðar möguleikum.  Í þeim könnunum þar sem íbúar hér eru spurðir sýna mælingar að þeir mælast þeir ánægðustu á landinu. Þetta er gott veganesti fyrir alla sem þykir vænt um samfélagið okkar, sama hvar í flokki þeir standa.

Framtíðarsýn

Mín skoðun er sú að í þessari stöðu ættu frambjóðendur allra flokka að leggja áherslu á framtíðarsýn.  Ekki að gera því skóna að verið sé að fara illa með eldri borgara, það er nefnilega rangt þótt þar megi gera gott betra.  Ekki að gera því skóna að leikskólinn okkar sé lélegur, það er rangt þótt gera megi gott betra. Ekki að halda því fram að þau fyrirtæki sem hingað kom verði til óþurftar, þar er rangt. Ræðum endilega hvað betur má fara en gleymum ekki því sem koma skal.

Höldum áfram að gera gott betra. Setjum X við D.
Elliði Vignisson