Hrólfur Vilhelm 9 ára íbúi á Þóroddsstöðum í Ölfusi sendi bæjarstjóra Ölfuss handskrifað bréf á dögunum, þar sem hann benti á þörfina fyrir hjólastíga í dreifbýli Ölfuss.
Í bréfinu segir Vilhelm: „Mig langar til að hjóla í sveitinni en ég get það ekki. Það vantar hjólastíga.“
Á síðasta fundi bæjarstjórnar Ölfuss var erindi Hrólfs tekið fyrir og var algjör samstaða allra flokka um málið. Bæjarstjórn mun koma erindinu til skipulags- og umhverfisnefndar með beiðni um að stofnaður verði stýrihópur til að grófhanna hjóla- og göngustígakerfi í dreifbýlinu með áherslu á tengingar við helstu þéttbýlisstaði.
Þá hvetur bæjarstjórn til þess að stýrihópurinn leiti álits hjá Hrólfi Vilhelm og öðrum börnum við undirbúning verkefnisins.