,,Að endurvekja fortíðina án þess að endurtaka hana“

Jónas Sigurðsson í viðtali

Blaðamaður Hafnarfrétta hitti tónlistarmanninn Jónas Sigurðsson í Þorlákskirkju þar sem hann var nýkominn úr upptökum á nýju lagi sem hann er að vinna að ásamt Lúðrasveit Þorlákshafnar. Lagið kemur út í byrjun október og er gefið út í tilefni 10 ára afmælis plötunnar Þar sem himin ber við haf en Jónas gerði þá plötu í samstarfi við Lúðrasveit Þorlákshafnar árið 2012. 

„Já, núna erum við að taka upp lag með lúðrasveitinni sem við ætlum að gefa út í tilefni þessara tónleika. Við erum aðeins að kallast á við fortíðina og fara inn í stemninguna eins og hún var þegar við gerðum plötuna. Taka upp kirkjuorgelið líkt og við gerðum í laginu Hafið er svart sem var svona stóra lagið á plötunni. Mér finnst mikilvægt að setja Þorlákshöfn í lagið með orgelinu og lúðrasveitinni. Við viljum endurvekja fortíðina án þess að endurtaka hana.“

Haldnir voru þrennir tónleikar í Reiðhöll Guðmundar þegar platan kom út. Nú standa fyrir dyrum 10 ára afmælistónleikar í Háskólabíó þann 11. nóvember næstkomandi.

„Þetta var alveg magnað verkefni. Algjörlega göldrótt. Allir hjálpuðust að. Maður fann svo hvað samfélagið var að gera þetta saman og reiðhöllinni var breytt í tónleikahöll. Í þetta sinn ætlum við að hafa tónleikana í Háskólabíó þar sem allt er til alls varðandi tónleikahald. Einnig er þar kvikmyndatjald sem við ætlum að nota til að sýna grafískt listaverk eftir Þórarin F. Gylfason sem hann gerði einmitt fyrir tónleikana 2012. Þar vorum við að vinna með fantasíuheim úr Þorlákshöfn, dolosarnir voru geimför og Þorlákskirkja var geimskip. Nú ætlum við að vinna þetta verk lengra og það verður flott viðbót við veglega tónleika. 

Lúðrasveit Þorlákshafnar hefur tekið þátt í mörgum stórum verkefnum eftir að platan var gefin út og unnið m.a. með Fjallabræðrum og Magnúsi Þór. Hvernig er að vinna aftur með Lúðrasveitinni?

„Lúðrasveitin er orðin svo góð, er í svo góðu formi og fer svo létt með þetta, maður finnur það alveg. Það þurfti að æfa mjög mikið síðast. Nú taka þau þetta bara með annarri. Þetta er mikið sami hópurinn og stóð að þessu síðast. Ása Berglind er að leiða þetta áfram og Lúðrasveitin með mikinn kraft í þessu.“

Er eitthvað sem stendur uppúr varðandi gerð þessarar plötu?

„Já. Þátttaka Tóna og trix. Þegar við gerðum plötuna fannst mér mjög mikilvægt að Tónar og trix væru með. Í mínum huga voru þau fulltrúar þeirra sem voru fullorðna fólkið þegar ég var að alast upp og líka fulltrúar fólksins sem hreinlega bjó þetta þorp til úr engu. Þau voru með á plötunni og spiluðu. Núna 10 árum síðar hafa margir úr hópnum fallið frá og mig langar að gera mikið úr hlutverki Tóna og trix á plötunni. Við ætlum að sýna upptökur af ferlinu við gerð plötunnar og segja frá því. Fyrir mér snýst þetta verkefni í grunninn um þetta: Þorpið og allt fólkið sem býr þar í samfélagi. Því þykir vænt hverju um annað. Svo eldist fólk og nýir taka við. Ég vil halda þessari tengingu. Að vita hvaðan maður kemur“

Tónleikarnir verða í Háskólabíó þann 11. nóvember og hægt er að nálgast miða á Tix.is.