Dauð viðvörun í október

Nú fer Þollóween að nálgast og ekki úr vegi að byrja að undirbúa sig.

Skólaslit 2: Dauð viðvörun er spennandi og hrollvekjandi lestrarupplifun fyrir áhugasama og forvitna krakka og líka alla hina sem vilja vera með. Lestrarupplifunin er í boði Reykjanesbæjar og er hugafóstur kennsluráðgjafa á Reykjanesi og Ævars Þórs Benediktssonar rithöfundar.

Sagan er hrollvekja sem fjallar um hóp af krökkum á Reykjanesinu sem gufa upp í skólaferðalagi. Enginn veit hvar þau eru eða hvað í ósköpunum gerðist. Fyrr en nú…

Á hverjum virkum degi í október mun birtast einn kafli úr sögunni ásamt myndlýsingu Ara Hlyns Guðmundssonar Yates. Höfundur skrifar söguna jafnt og þétt út mánuðinn sem gerir söguna enn meira spennandi. Það verður einnig hægt að hlusta á kaflana. Sagan er sögð með miðstig grunnskóla í huga en er í raun fyrir öll sem þora.

Hægt er að fylgjast með sögunni á vefsíðu Skólaslita en þar er eins og áður segir bæði hægt að hlusta og lesa.