Langar að læra leiklist í London eða New York

Nú verður Ölfusingur vikunnar endurvakinn hér hjá Hafnarfréttum. Að þessu sinni er það Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir eða Sirrý Fjóla sem hlýtur titilinn Ölfusingur vikunnar. Hún hefur alist upp í Þorlákshöfn frá blautu barnsbeini og heillar alla með sinni einstöku útgeislun og jákvæðni. Um þessar mundir er Sirrý Fjóla að leika í barnasýningunni Benedikt búálfi hjá Leikfélagi Hveragerðis þar sem hún fer með hlutverk Dídíar mannabarns. Miðasala á sýninguna er á tix.is.

Fullt nafn:

Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir ( Sirrý Fjóla )

Aldur:

18 ára

Fjölskylduhagir:

Ég bý með mömmu og pabba og kettinum mínum honum Jónsa.

Starf:

Ég vinn í Skálanum í Þorlákshöfn og sem fimleikaþjálfari hjá Þór.

Hvað ertu búin að búa í Ölfusi í langan tíma?

Alveg frá því ég var tveggja ára.

Hver er uppáhalds maturinn þinn?

Ég ELSKA jarðarber, gæti borðað þau í öll mál en svo finnst mér lasagna mjög gott.

Áttu þér uppáhalds bók, hver er hún?

Mjög erfið spurning! Ég elska að lesa og geri mikið af því. Ég er ný búin að lesa The seven husbands of Evelyn Hugo og fannst hún stórkostleg! En svo elska ég bókina: Er þetta ást eftir Liz Berry.

Hvaða kvikmynd getur þú horft á aftur og aftur?

Er með nokkrar en Pitch Perfect myndirnar standa mjög mikið upp úr ásamt Spiderman og How to train your dragon myndunum.

Hvað hlustar þú mest á?

Kvikmyndatónlist. Alltaf. Elska söngleikjatónlist eða bara yfir höfuð bíómyndatónlist hvort sem það sé úr teiknimyndum eða leiknum myndum.

Hver er þinn uppáhaldsstaður í Ölfusi?

Útsýnispallurinn í Þorlákshöfn. Elska að fara þangað til að róa hugann og bara einfaldlega hlusta á sjóinn.

Hvernig hressir þú þig við þegar þess þarf?

Mikið að vinna með það að syngja mjög hátt í bílnum eða fara eitthvert með vinum mínum, það klikkar aldrei.

Hver er þín helsta fyrirmynd?

Ég á mikið af góðu fólki í kringum mig hvort sem það séu vinkonur mínar og vinir eða fjölskylda, þess vegna á ég margar fyrirmyndir en mamma, pabbi og amma Sirrý eru þar fremst í flokki. Ef ég fer svo út fyrir fólkið sem ég þekki er það örugglega Emma Watson og Katla Margrét leikkona.

Hvaða lag fær þig til að dansa?

Öll lög, ég dansa mjög mikið við tónlist, reyndar ekkert sérstaklega vel en þó. En ég dansa extra mikið við: What makes you beautiful með One Direction.

Hefur þú grátið af gleði? Ef svo, hvað aðstæður kölluðu fram gleðitárin?

Ég grét úr gleði þegar ég og þrjár aðrar vinkonur mínar settum upp frumsamda söngleikinn okkar síðastliðið vor. Það fór svo mikil vinna í það þannig að þegar frumsýningin kláraðist þá vorum við allar grenjandi. Svo grét ég úr gleði þegar hæfileikaríka vinkona mín, Emilía Hugrún, vann söngkeppni framhaldsskólanna. Annars er ég grjóthörð, lofa.

Hvað elskar þú við Ölfus?

Fólkið. Það býr svo mikið af frábæru fólki í Ölfusi og samstaðan er mjög góð sem mér finnst vera stór kostur. Allir hjálpast að og styðja sitt fólk.

Hvað myndir þú vilja sjá í Ölfusi sem ekki er hér nú þegar?

Kannski flott útisvið í skrúðgarðinum í Þorlákshöfn. Þá þyrfti ekki alltaf að vera að setja upp svið fyrir bæjarhátíðir. Og svo fleiri ruslatunnur!

Hver er uppáhalds æskuminningin þín?

Ég er svo heppin að eiga mikið af góðum æskuminningum en það eru tvær minningar sem koma einna helst upp í hugann. Sú fyrsta er þegar ég og Svanlaug vinkona mína gerðum risavaxið snjóhús í garðinum og eyddum mörgum dögum þar og sú seinni er fyrsta sirkus sýningin mín í sirkustjaldinu. Það er mjög dýrmæt minning.

Hvert dreymir þig um að fara?

Mig langar rosalega til London eða New York að læra leiklist, það er minn stærsti draumur þannig að mig dreymir um að fara þangað. Þegar að það kemur að framtíðinni. Annars er Hawaii á bucket listanum.

Áttu þér uppáhalds mottó, eða einhver orð sem þú hefur í huga dags daglega?

Rosalega frumlegt mottó eða hitt þó heldur en ég hef verið að vinna mjög mikið með Yolo síðastliðna mánuði því það er svo rétt. Gerðu það sem þú vilt því lífið er núna og það er svo ótrúlega dýrmætt.

Hvað er framundan hjá þér?

Það sem er framundan hjá mér er aðallega að halda áfram að sýna Benedikt Búálf með leikfélagi Hveragerðis sem er ótrúlega skemmtilegt! Svo er ég aðalskipuleggjandi Söngkeppni Nfsu sem verður núna í byrjun nóvember og ég er ótrúlega spennt fyrir. Síðan bara sjá hvert lífið tekur mig, það er alltaf eitthvað nýtt og spennandi.

Eitthvað að lokum?

Allir að koma að sjá Benedikt Búálf og skella sér á eitt stykki söngkeppni Nfsu! Og svo bara verið góð hvort við annað.