Sýning um Ragnheiði Ólafsdóttur opnar undir stiganum

Fimmtudaginn 6. október opnar sýningin „Litið yfir farinn veg; líf og störf Ragnheiðar Ólafsdóttur“ í Galleríinu undir stiganum. Ragnheiður er mörgum heldri borgurum að góðu kunn. Hún flutti til Þorlákshafnar ásamt eiginmanni, Björgvini Guðjónssyni, og fjórum af fimm börnum árið 1959 en þau hjón byggðu húsið að A-götu 22.

Sumarið 2015 var byggðasafnssýning undir stiganum, tileinkuð konum í Ölfusi. Undirrituð tók viðtöl við nokkrar af þeim konum sem höfðu búið hér lengi og allar nefndu þær Ragnheiði sem eina af eftirminnilegustu konum þorpsins. Hún heillaði fólk með drifkrafti og framkvæmdum enda kom hún bæði að flutningi slysavarnardeildarinnar Mannbjargar frá Hveragerði auk þess sem hún var formaður deildarinnar um nokkurt skeið. Ragnheiður var frá upphafi formaður kirkjubyggingarnefndarinnar, hún var í skólanefnd og Söngfélagi Þorlákshafnar. Ragnheiður var fréttaritari fyrir Morgunblaðið í nokkuð mörg ár auk þess að standa sig vel í barnauppeldinu.

Auk bókasafnsins standa að sýningunni þær Halla Kjartansdóttir, Alda Einarsdóttir og eftirlifandi börn Ragnheiðar, þau Hörður, Guðbjörg og Katrín Jónína Björgvinsbörn.

Sýningin opnar kl. 16 á fimmtudag og stendur út mánuðinn, Bæjarbókasafnið býður upp á kaffi og konfekt við opnunina.

Öll velkomin!

Árný Leifsdóttir
forstöðukona Bæjarbókasafns Ölfuss