Tveir Ölfusingar tilnefndir sem framúrskarandi ungur Íslendingur 2022

Í dag fer verðlaunaafhendingin Framúrskarandi ungur Íslendingur fram í KR heimilinu. Forseti Íslands og landsforseti JCI afhenda þeim sem valdir voru í topp tíu viðurkenningarskjal. Síðan mun forseti Ísland tilkynna hver hlýtur verðlaunagripinn Framúrskarandi ungur Íslendingur.

Verðlaunin sem veitt eru árlega af JCI Íslandi, eru fyrst og fremst hvatningarverðlaun til ungs fólks sem er að takast á við krefjandi og athyglisverð verkefni. Þetta er hvatning og viðurkenning fyrir ungt fólk sem kemur til með að hafa áhrif í framtíðinni.

Topp tíu listinn yfir framúrskarandi unga Íslendinga hefur verið birtur og í ár eru hvorki meira né minna en tveir þessara aðila úr Ölfusi, þeir Daníel E. Arnarsson frá Þorlákshöfn og Stefán Ólafur Stefánsson frá Öxnalæk.

Daníel er tilnefndur fyrir framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda. Hann hefur starfað að málefnum hinsegin fólks og hefur verið framkvæmdastjóri Samtakanna ‘78 frá árinu 2017. Hann hefur einnig starfað í stjórnmálum og stofnaði meðal annars Ung vinstri græn á Suðurlandi. Hann var varaþingmaður Suðurkjördæmis 2017 og varaþingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður frá 2021. Auk þessa leggur Daníel stund á söng og stýrir karaoke-kvöldum á hinsegin skemmtistaðnum Kiki-Queer Bar í hverri viku.

Stefán Ólafur er tilnefndur fyrir störf á sviði viðskipta, frumkvöðla og/eða hagfræði. Árið 2016 setti hann á fót fyrirtækið Ekki gefast upp! Þar er boðið upp á líkamsrækt fyrir börn og ungmenni sem glíma við andlega vanlíðan. Hann starfar einnig hjá VIRK sem IPS atvinnulífstengill en áður var hann ráðgjafi á BUGL.

Athöfnin hefst klukkan 17:15 í dag.