Hamingjan er hér – Heiðar Snær Magnússon segir frá nýjum heimildaþáttum um sögu Þórs Þorlákshafnar

Um nýliðin jól voru sýndir glænýir þættir á Stöð 2 Sport sem nefnast Hamingjan er hér. Þar er rakin saga karlaliðs Þórs Þorlákshafnar í körfubolta og rifjað upp magnað tímabil sem endaði með Íslandsmeistaratitli. Sá sem á veg og vanda að gerð þessara þátta heitir Heiðar Snær Magnússon og er mörgum vel kunnur sem herskár stuðningsmaður Þórs og félagi í Græna drekanum en einnig hefur hann haslað sér völl sem leiklýsandi hjá Sýn. Hafnarfréttir tóku Heiðar Snæ tali á dögunum.

Hvenær varð hugmyndin að þáttunum til?

,,Það hafði kvisast út síðasta vor að Þór væri að spá í að taka þátt í Evrópukeppni sem og þeir svo gerðu en það er alls ekki algengt að íslensk félagslið fari út fyrir landsteinana að keppa. Ég fann strax fyrir mikilli löngun að fara út og sjá liðið spila. Raunverulega hugmyndin af þessu kom í júní á síðasta ári þegar ég lá í baði í Danmörku, þann dag hafði Þór staðfest þátttöku sína í þessari Evrópukeppni og þar sem ég er lýsandi hjá Sýn og lýsi leikjum í efstu deild í körfubolta þá var leiðin ekkert sérstaklega löng, ein skilaboð á Garðar Örn tæknistjóra stöðvarinnar og meðframleiðanda þáttanna og hann tók strax mjög vel í hugmyndina en hún þyrfti að fara í gegnum ákveðið ferli þar sem hærra settir menn innan fyrirtækisins þyrftu líka að hafa trú á þessu. Upprunalega hugmyndin var sú að taka bara upp þetta Evrópuævintýri en þróaðist svo úr því að taka frekar fyrir söguna og þetta stórkostlega tímabil þar sem liðið varð íslandsmeistari.

Myndatökur í Mitrovica

Hvernig var framleiðsluferlið?

,,Ferlið var í raun stórskemmtilegt og líklega það skemmtilegasta sem ég hef tekið þátt í á ævinni. Byrjuðum á því að ferðast með liðinu, ég ásamt Sigurði Má camerumanni og meðframleiðanda og snillingi til Kosovo sem var alveg ótrúleg upplifun, fylgdum liðinu til Mitrovica sem er um 85 þúsund manna borg eða bær um klukkutíma frá höfuðborg landsins. Menningin og andinn þar er allt annað en það sem maður hefur vanist, en körfuboltinn er númer 1,2 og 3 í lífi bæjarbúa. Þórs liðinu gekk því miður ekki eins vel og vonast var eftir en frábær upplifun að hafa ferðast með liðinu, eitthvað sem maður mun búa að alla tíð.

Styrmir Snær Þrastarson í viðtali

,,Næst tóku við viðtalsdagar sem voru langir og ótrúlega skemmtilegir en við vorum svo heppnir að fá að nota efri hæðina í gamla Frostfisk húsinu og er ég mjög þakklátur fyrir það enda fannst mér persónulega “lúkkið” í viðtölunum þar ótrúlega flott og gerði mikið fyrir þættina. Einnig var tekið upp í bænum en ég var og er svo heppinn að vinna einnig á frábærum vinnustað sem heitir Petmark og hleyptu þau okkur inn eina helgina þar sem viðtöl voru tekin, einnig var brunað á Sauðárkrók fyrir eitt viðtal. Samtals voru þetta 6 heilir dagar  sem fóru í viðtölin sjálf en auðvitað miklu meiri tími sem fór í undirbúning fyrir þau.

Næst tók svo við klippivinna sem Obbosí sá um en mér þótti og þykir enn ótrúlega vænt um hversu mikið ég og við fengum að taka þátt i því hvernig þessu var öllu saman raðað upp og klippt saman.

Davíð Arnar Ágústsson séður gegnum tökuvélina

Hvernig var tilfinningin að sjá þættina í sjónvarpinu?

,,Ég var auðvitað búinn að sjá þættina og það nokkrum sinnum áður en þeir voru svo sýndir í sjónvarpinu en tilfinningin samt sem áður alveg ótrúleg, fyrst þegar maður sá trailerinn í sjónvarpinu og svo varð maður einhvernvegin hálf meyr þegar bæði fyrri og seinni þættinum lauk og var það algjört lykilatriði að horfa a þetta í kringum fjölskylduna sína sem var gjörsamlega að rifna úr stolti. Tilfinningarnar hjá mér voru blendnar, bæði ótrúlega stoltur af sjálfum mér og svo einhvern veginn stressaður yfir því hvað öðrum fyndist. Það var ótrúlega mikilvægt fyrir mér að bæði leikmenn, þjálfarar og bara allir sem tengjast liðinu sem og Þorlákshafnarbúar yrðu ánægðir með þetta.

Fyrirliðinn Emil Karel Einarsson

Hvernig hafa viðtökurnar verið?

,,Viðtökurnar hafa farið fram úr mínum björtustu vonum, mikið af fallegum skilaboðum og mikil ánægja með þessa þætti og þykir mér alveg ótrúlega vænt um þau viðbrögð. Maður er einhvern veginn ennþá í skýjunum með þetta allt saman og ég ætla mér að vera þar eins lengi og hægt er, enda var og er þetta verkefni mér algjört hjartans mál og skiptir mig miklu máli.

Annars langar mig að þakka stjórnarmönnum, þjálfurum, leikmönnum og öllum í kringum klúbbinn fyrir virkilega gott viðhorf gagnvart þessu verkefni, það er alls ekki sjálfsagt að hleypa utanaðkomandi mönnum með camerur svona nálægt liðinu. Aldrei neinar lokaðar dyr, allir viljugir til þess að gera útkomuna sem besta.

Þó að árangur liðsins hingað til á þessari leiktíð hafi verið vonbrigði þà þýðir ekkert annað en að við aðdáendur liðsins og bæjarbúar höldum afram að styðja við liðið og gefum jafnvel í til þess að liðið nái að tryggja tilverurétt sinn i efstu deild. Liðið er mjög vel skipað og líður manni eins og það þurfi ekki mikið til þess að allt smelli og liðið komist á einhverja sigurgöngu. Mikilvægast er að liðið fái alvöru stuðning, svo ég vonandi sé ykkur bara á næsta leik.

Sagði Heiðar Snær Magnússon.

Hafnarfréttir óska Heiðari Snæ innilega til hamingju með þessa frábæru og vel gerðu heimildaþætti og ef lesendur eiga eftir að sjá þá mæli ég með því að gera það sem allra fyrst og taka Heiðar á orðinu og fylla stúkuna á næstu leikjum.

Hamingjan er hér